135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:08]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég talaði um hugmyndafræði og stefnu ríkisstjórnarinnar þá talaði ég sérstaklega út frá 18. gr. og í raun og veru sem svar við ræðu hv. þm. Ástu Möller sem fór ítarlega í hvað væri þar á bak við.

En það er rétt hjá hv. þingmanni að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tökum undir þá skiptingu sem hér er lögð fram og ríkisstjórnin, stjórnarliðar munu fá stuðning í því. Ég tel að 18. gr. eigi ekkert erindi þarna inn, sé aðskotahlutur í þessu frumvarpi, að hún eigi að koma sem fullmótað frumvarp á vorþingi og þá ræðum við það.

Hvað varðar fjárlög, kostnað heilbrigðisþjónustunnar frá 2005, þá hefur kostnaðurinn vissulega aukist og það er af mörgum ástæðum. Mest fé tekur Landspítalinn og í raun og veru tekur sérfræðiþjónustan á höfuðborgarsvæðinu miklu meiri þjónustu en þyrfti, við erum að veita þjónustu á miklu hærra þjónustustigi en þarf í dag. Ég trúi því að með enn öflugri forvörnum, sem ríkisstjórnin stefnir að, en ekki síður og kannski fyrst og fremst til að minnka þennan kostnað þurfi að byrja á að stórefla heilsugæsluþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Hvað varðar hugmyndafræðina um rekstur þá er það ekkert leyndarmál og á að vera öllum ljóst að við viljum að grunnþjónustan, þjónusta sem er nauðsynleg fyrir heilbrigði sem er sjúkrahúsþjónustan og heilsugæslan, sé í opinberum rekstri en ekki á hinum opna markaði.