135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:25]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði ekkert um það hvenær stofnunin ætti að taka til starfa, það þyrfti góðan tíma til að undirbúa slíka stofnun. En skilgreina þarf kaup á almannaþjónustu og fjármagn verður að vera vel skilgreint. Það hefur ekki verið svo. Eins og almannaþjónustan er skilgreind í lögum er hún mjög víðtæk og góð, en hefur liðið fyrir að hafa ekki fengið nægt fjármagn. Almannaþjónustan á Akureyri og á Höfn hefur verið víðtæk og hefur gefist vel, allir ánægðir, en hana skortir fjármagn. Það er ekki nóg að skilgreina, hið opinbera þarf líka að tryggja rekstrargrunn.

Hvað varðar stefnu okkar vinstri grænna þá byggjum við á þeirri grunnhugsun að almannaþjónustan sé hjá opinberum aðilum, sveitarfélögum og ríki. Við höfum aldrei sagt að ekki komi til greina að einhver þjónusta sé einkarekin, öll sérfræðiþjónusta í landinu er í einkarekstri. Við segjum aftur á móti að við veitum allt of mikla þjónustu á þessu sérfræðistigi. Við viljum efla almannaþjónustuna með því að að efla heilsugæsluna, efla fyrsta þjónustustigið og ná kostnaðinum niður. Þjónustan er of oft veitt á of háu stigi.

Við byggjum skoðanir okkar líka á því að einkarekstur (Forseti hringir.) hefur víða (Forseti hringir.) ekki gengið upp þegar kostnaðurinn hefur verið skoðaður.