135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:48]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki orða bundist og kveð mér hljóðs þegar fulltrúi Framsóknarflokksins lýsir yfir áhyggjum sínum af kjaraskerðingu öryrkja og aldraðra eftir að hans ágæti flokkur hefur verið við stjórnvölinn, bæði í félags- og heilbrigðisráðuneyti, í (Gripið fram í.) tólf ár. Öllum er ljóst að algjört ófremdarástand ríkir í málefnum þessara svokölluðu minnihlutahópa eftir stjórnartíð Framsóknarflokksins.

Umræðan snýst um frumvarp sem fjallar um breytingar á verkaskiptingu milli þessara ráðuneyta til að koma skikki á það neyðarástand sem ríkt hefur. Tilgangur frumvarpsins og laganna er sá að félagsmálaráðuneytið geti tekið á þeim málefnum aldraðra sem ekki snúa að sjúkdómum eða veikindum og að heilbrigðisráðuneytið geti einbeitt sér að því að byggja upp hjúkrunarþjónustu í þágu aldraðra. Sá er tilgangur frumvarpsins og við bindum miklar vonir við framgang þess. Þetta er upphafið að þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin mun standa fyrir, að bæta kjör aldraðra og öryrkja eftir atvikum.