135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:53]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að menn geti rökstutt það sem þeir segja í ræðustóli Alþingis. Ég bið hv. þm. Ellert B. Schram að sýna mér með opinberum tölum að kjör aldraðra og öryrkja hér á landi hafi versnað á síðustu tólf árum. Ég hef hvergi séð þær tölur. Þingmaðurinn fullyrðir það úr þessum ræðustóli að kjör aldraðra hafi versnað á tímabilinu. Ég sagði að þau hefðu batnað en við ættum enn langt í land með að mæta ákveðnum hópum. Hv. þingmaður skal sýna mér fram á það með opinberum tölum, viðurkenndum tölum, að kjör aldraðra og öryrkja almennt hafi versnað á síðustu tólf árum.

Ég segi: Það er rangt. Ég er ekki á því að öll þjónusta við aldraða og öryrkja sé í rúst. Margt hefur verið vel gert á síðustu tólf árum en það má gera betur. Því miður skerðir sú stefna sem mörkuð hefur verið kjör þessara hópa. Það er eina staðreyndin sem liggur fyrir, eina staðreyndin sem við getum rætt um. Ég vona að breytingar verði á því.