135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:06]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um lagafrumvarpið. Náðst hefur ágætis samstaða milli þeirra sem hagsmuna eiga að gæta í málinu. Ég vil hrósa hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hafa samráð um málið en á það hefur oft skort hjá nýrri ríkisstjórn.

Felld er í burtu 19. gr. um rekstrarstyrki til afurðastöðva. Mikil breyting hefur orðið á afurðastöðvum og því miður er ekki sú samkeppni sem þyrfti að vera á markaðinum. Í kjölfar stofnunar nýs rekstrarfélags í mjólkuriðnaði eru ekki forsendur fyrir þessari ráðstöfun lengur og þess vegna er verðmiðlunargjaldið lagt niður.

Í öðru lagi hefur gjaldið verið nýtt til jöfnunar á flutningskostnaði framleiðenda, eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarp sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti fyrir, en það fyrirkomulag er orðið úrelt og í raun aflagt. Ég vildi sjá frekari röksemdafærslur fyrir því en að mínu viti er flutningskostnaður framleiðendanna enn þá til staðar þótt hann sé ekki eins mikill og hann var.

Í þriðja lagi hefur verðmiðlunargjaldið verið nýtt til að styrkja flutning hráefnis milli afurðastöðva og ef til vill á það sama við hér og um flutninginn milli framleiðenda. Einn liður finnst mér með öllu órökstuddur og það er af hverju verið er að leggja verðmiðlunargjaldið niður. Það hefur verið nýtt til styrktar flutningi á ýmsum vörum til fjarlægari staða þar sem ekki eru fyrir afurðastöðvar, svo sem í Vestmannaeyjum og Grímsey. Ef til vill getur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra útskýrt hvernig koma á til móts við afskekkta staði því að eftir því sem ég fæ best séð munu þeir verða út undan.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um 19. gr. en ég velti fyrir mér ástæðum þess að 22. gr. sé felld burtu. Ekki á lengur að viðhalda nauðsynlegri hagræðingu sem komst á með verðtilfærslu árið 1998 þegar niðurgreiðsla á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða var hætt til framleiðenda. Það hefur að vísu margt gott unnist á undanförnum árum en ég sé ekki rök með því að hagræðingin verði algjörlega tekin út úr myndinni, ég fæ ekki betur séð en að hún sé enn þá nauðsynleg. Við vitum að kúabændur standa því miður mjög illa á mörgum stöðum á landinu þó að vissulega hafi mikið unnist á síðustu árum.

Ég hef þó mestar áhyggjur því að 3. mgr. 13. gr. sé felld brott. Sú lagagrein var sett inn í lögin til að eyða réttaróvissu sem skapaðist um gildandi búvörulög nr. 99/1993. Talið var að lögin tryggðu ekki nægilega vissu um samráð, samruna og verðtilfærslu í mjólkuriðnaði og séu undanskilin gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans. Góð og gild rök voru fyrir því að ákvæðið var sett á sínum tíma. Ekki er um það deilt að mikill fjárhagsvandi hefur einkennt flest svið landbúnaðar á undanförnum árum og slíkur vandi er því miður alls ekki einskorðaður við Ísland. Segja má að svipuð fjárhagsvandræði steðji að bændum í nágrannalöndum okkar og víða um heim þó að ástæður þess séu misjafnar.

Samkvæmt almennum hagfræðilegum rökum eflir samkeppni í viðskiptum hagvöxt en í þessu tilviki var talið að þau rök þyrftu að víkja fyrir markmiðum búvörulaga og sérstöðu landbúnaðarins enda mundi fyrirkomulagið geta orðið neytendum og þjóðfélaginu til góða. Markmið búvörulaga er fyrst og fremst að vernda byggðastefnu og tryggja að landbúnaðarvörur, sérstaklega ferskar mjólkurafurðir, verði í boði á viðráðanlegu verði fyrir alla landsmenn. Ég hef áhyggjur af því að frumvarpið muni leiða til þess að verð á slíkum vörum muni hækka og það er neytendum að sjálfsögðu í óhag.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið. Það er jákvætt að haft var samráð við hagsmunaaðila og vissulega var kominn tími til fara ofan í málið. Ég vonast samt til að nú séu uppfyllt ákvæði stjórnarsáttmálans um breytingar á landbúnaðarkerfinu og að hér muni hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra láta staðar numið.