135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:25]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta hv. þingmann. Tilgangur laganna frá 2004 var sá að gera afurðastöðvum í mjólkuriðnaði kleift að mæta harðnandi samkeppni frá útlöndum með sameiningu og samruna. Tilgangurinn var ekki sá að auka samkeppni heldur að stuðla að meiri samþjöppun á markaðnum. Í skjóli forréttindaaðstöðu sinnar hafa þessar afurðastöðvar síðan reynt að misbeita valdi sínu, hafa samráð um verðlagningu, til þess að reyna að knésetja samkeppnisaðila sem heitir Mjólka. Þetta eru staðreyndir málsins.

Þetta er aðför að neytendum og það á ekki að koma með gömlu, loðnu bullkenningarnar um að í afstöðu minni felist aðför að bændum. Í henni felst aðför að mönnum sem misbeita valdi sínu. Afurðastöðvum sem misnota aðstöðu sína. Og það er það sem við eigum að standa vörð um, jafnt í þessum viðskiptum sem öðrum, að verja fólk fyrir afleiðingum ólögmæts samráðs. Það er grundvallaratriðið.

Við þurfum síðan að ræða stuðning við landbúnað að öðru leyti. Það er allt annað mál. En mér finnst það billegt trikk, svo ég segi ekki nú ekki meir, að blanda þessum tveimur óskyldu þáttum saman. Það er ekki til þess fallið að vísa veginn fram á við í jákvæðri umræðu. Með lagaákvæðum af þessum toga er einfaldlega búið í haginn fyrir óheilnæma viðskiptahætti, búið í haginn fyrir óheilnæma markaðshegðun. Þú lokar hinn ferska vind úti. Þú lokar fyrir gegnumtrekkinn og gerir mönnum kleift að sitja í forréttindaaðstöðu í baðmull, vafðir henni, langt frá þeirri ógn og hættu sem þeir eiga að þurfa að standa frammi fyrir á frjálsum markaði.