135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er mjög fróðlegt að hlusta á talsmenn núverandi ríkisstjórnarflokka í landbúnaðarmálum, annars vegar hæstv. ráðherra Einar K. Guðfinnsson og hins vegar hv. þm. Árna Pál Árnason. Það liggur við að maður verði orðlaus en það þarf ekkert að koma á óvart þegar þessir flokkar ná saman, þegar frjálshyggjuöflin í þessum tveimur flokkum ná saman, bæði í málflutningi og síðan í gjörðum.

Það er býsna athyglisvert að eitt meginkappsmál þessarar ríkisstjórnar, og eitt af aðalmálum í stjórnarsáttmálanum, er að stokka upp stjórnsýsluna með þeim hætti að rústa grunnstoðum landbúnaðarins og leggja niður landbúnaðarráðuneytið eða eins og það er kallað að sameina það, leggja það inn í sjávarútvegsráðuneytið en færa burt alla helstu málaflokkana sem hafa verið grunnstoðir íslensks landbúnaðar og félagskerfis landbúnaðarins. Það má heita metnaðarleysi af hæstv. ráðherra að láta slíkt gerast. Þegar maður hlustar svo á orðaskiptin hér, á talsmann Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum, Árna Pál Árnason, sem finnst skrefin í átt að taumlausri markaðsvæðingu of stutt og finnst landbúnaðurinn í sjálfu sér ekkert annað en hluti af einhverju viðskiptakerfi sem þurfi að opna og markaðsvæða sem allra mest, ekki bara á innlenda vísu heldur á alþjóðavísu, þá skilur maður alveg hvað er á ferðinni.

Það er alveg klárt að fyrir íslenskan landbúnað, bændastéttina, bæði framleiðslumenningu og annað sem landbúnaðurinn stendur fyrir, er þetta ríkisstjórnarsamstarf mikið áhyggjuefni. Það er ekki síður mikið áhyggjuefni fyrir neytendur því að hingað til hefur það verið mjög sterk krafa hjá almenningi að geta staðið að baki landbúnaðinum, staðið á bak við það hvernig landbúnaðarframleiðslan hefur verið byggð upp, ekki hvað síst hvernig hinn félagslegi þáttur landbúnaðarins hefur verið byggður upp, bæði landbúnaðurinn sjálfur, stoðkerfi hans, leiðbeiningar, rannsóknir, úrvinnsla og dreifing. Allt hefur þetta verið byggt upp þannig að samfélagslegar hugsjónir hafa drifið þetta áfram og verið leiðandi í því, bæði framleiðendum og neytendum til góða, og þegar gerðar eru skoðanakannanir meðal landsmanna vilja 90% þeirra sem taka þátt standa vörð um þetta. Svo fáum við ríkisstjórn sem hefur það meginmarkmið, fyrstu málin sem eru flutt eru um það hvernig brjóta megi niður félagslega þætti sem hafa staðið að baki landbúnaðinum og félagslegri uppbyggingu hans á undanförnum árum og áratugum, jafnvel í heila öld.

Í frumvarpi sem liggur fyrir um breytingar á stjórnskipuninni á að sundra Skógrækt ríkisins, Skógræktinni sem hefur verið hluti af íslenskum landbúnaði í líklega meira en 100 ár, það er númer eitt. Og Landgræðslan, við vorum að halda upp á 100 ára afmæli landgræðslu, hún hefur verið vistuð og verið ein af grunnstoðum íslensks landbúnaðar í 100 ár. Þarna er einhver ógn fyrir þá aðila sem vilja brjóta niður grunnstoðir landbúnaðarins, félagskerfið. Búnaðarskólarnir hafa þróast sem menningar- og menntastofnanir landbúnaðar og atvinnulífs í meira en 100 ár líka og gengið vel og án þess að fyrir því séu færð nein rök eru þeir líka teknir undan.

Þegar maður hlustar á fulltrúa Samfylkingarinnar, talsmann hennar í landbúnaðarmálum, Árna Pál Árnason, sem finnst öll skref of stutt í að höggva niður félagskerfi landbúnaðarins, þá held ég að ekki sé ofmælt að mjög fáir bændur eða fólk í landbúnaði hafi óskað sér þeirrar ríkisstjórnar þar sem saman væru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vegna þess að þá yrði þetta bara botnlaus og bein vörn.

Þó að mönnum finnist ekki það frumvarp sem hér er lagt fram stórvægilegt á alla lund þá er þar samt verið að fella niður eina af þeim stoðum sem settar voru til að standa undir félagslega uppbyggðu landbúnaðarkerfi, bæði framleiðslu, úrvinnslu og dreifingu á mjólk og mjólkurvörum, til hagsbóta bæði fyrir framleiðendur og neytendur. Ég efast um að nokkur hér hefði kjark til þess að koma upp í ræðustól og segja að þetta gjald, þessi samtrygging eða þessi félagslega ábyrgð sem hér á að afnema, hafi verið til trafala í uppbyggingu mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaðar, ég efast um að nokkur mundi segja það. Þó að það lægi kannski í orðum hv. þingmanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, að þetta hefði verið til trafala þróun í mjólkuriðnaði, þá held ég að fæstir mundu voga sér að segja það. En nú er svo brýnt að leggja þetta niður.

Hvað er verið að leggja niður? Það var heimilt að taka gjald til að jafna aðstöðumun, tryggja dreifða framleiðslu, bæði framleiðslu í mjólk og einnig dreifðar mjólkurvinnslur. Hvar var það? Það var t.d. gert til að jafna aðstöðuna fyrir mjólkurframleiðendur á Barðaströnd, Rauðasandi, Vestfjörðum, Norðausturlandi, reyndar hvar sem er á landinu, hvað varðaði t.d. flutningskostnað frá búi til mjólkurbús, til að tryggja dreifða framleiðslu og að mjólkurbú gætu ekki beitt því að frjálsri vild að segja að það væri svo dýrt að sækja mjólkina t.d. niður á Rauðasand að þau vildu helst losna við það. Þá var til verðmiðlunarsjóður, það var til félagslega uppbyggð ábyrgð að tekið skyldi á slíku máli á félagslegan og sameiginlegan hátt. Sumir sem voru kannski nær mjólkurbúum gátu því þurft að borga eitthvað aðeins meira, það varð meiri kostnaður á hvern lítra hjá þeim. Það var sem sagt til heimild að færa þennan kostnað yfir á mjólkurframleiðslu á öðrum svæðum, eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Síðustu ár hafa einungis afurðastöðvarnar á Ísafirði og Vopnafirði notið þessa hluta verðmiðlunarinnar. Nú hefur afurðastöðin á Vopnafirði verið lögð niður og í kjölfar stofnunar nýs rekstrarfélags í mjólkuriðnaði, MS ehf., sem afurðastöðin á Ísafirði varð hluti af, eru ekki lengur forsendur fyrir þessari ráðstöfun.“

Ef þetta verður fellt niður fellur líka niður möguleikinn til að koma fram pólitískum vilja um að við viljum halda uppi félagslegri og dreifðri mjólkurframleiðslu í landinu. Þetta er því pólitísk skírskotun. Það voru samtök bænda sem tóku þetta upp á sínum tíma og fengu til þess stoð í lögum.

Þá var þetta gjald líka til þess að tryggja að hægt væri að bjóða mjólk og mjólkurvörur á hliðstæðu verði hvar sem var á landinu. Með því að fella þetta algjörlega burt er sú aðkoma ekki möguleg. Þegar samtímis verður gríðarleg samþjöppun, fækkun á mjólkurvinnslustöðvum í landinu og þær sameinast, nálgumst við æ meira hreina fákeppni á þessu sviði. Þá verður þessum fyrirtækjum í lófa lagið að segja: Það er svo óhagkvæmt að sækja mjólk á þennan stað eða reka þessa einingu að fyrir því er ekki vilji innan fyrirtækisins og þess vegna viljum við leggja hana niður. Síðasta umræðan var um mjólkurbúið á Egilsstöðum og þó að þetta sé ekki alveg nátengt því er þetta pólitískt sama málið, að það fyrsta sem núverandi ríkisstjórn leggur til er að höggva niður þá félagslegu samtryggingu sem þarna hefur verið til staðar, ekki síst til öryggis fyrir neytendur.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að það er þessi ímynd landbúnaðar sem pólitísk sátt er um, ekki hin frjálsa viðskiptaímynd sem Samfylkingin berst fyrir og við heyrðum í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Almenningur lýsir ekki yfir sátt um stefnu Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum eins og hún birtist í málflutningi hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Það er alveg klárt, ég leyfi mér að fullyrða það. Við viljum hafa öflugan, dreifðan landbúnað, við viljum hafa félagslega tryggingu fyrir því hvernig að honum er staðið. Við viljum líka að mjólkurvinnslan sé eins dreifð og kostur er og einnig mjólkurframleiðslan og það sem hér er verið að afnema var einmitt liður í því að tryggja að svo væri. Hin pólitísku skilaboð í frumvarpinu eru hinn alvarlegi hluti málsins og þau komu svo rækilega fram áðan í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, talsmanns Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum, sem fannst þetta lítið skref í því að opna fyrir eins og hann orðaði það hin frjálsu viðskipti í landbúnaðarmálum. Það er nefnilega svo stutt á milli frelsis og fákeppni og einokunar.

Þess er skemmst að minnast í flutningsmálunum, að nú er komin sú staða að það eru nánast tvö fyrirtæki í landinu sem annast alla flutninga bæði innan lands og milli landa og geta þess vegna skammtað sér verð og þjónustustig hvar sem er. Það er einmitt þetta sem leiðir til slíkrar fákeppni og sú heimild sem var til þess að færa verð á milli vara var einmitt trygging fyrir því að hægt væri að bjóða fjölbreytt úrval af mjólkurvörum á tiltölulega litlum markaði.

Þótt menn upplifi það þannig að þetta frumvarp breyti kannski ekki miklu þessa stundina felast í því pólitísk skilaboð um að fella eigi niður, höggva að hinum félagslega bakgrunni og hinni félagslegu uppbyggingu sem staðið hefur að baki bæði innlendri landbúnaðarframleiðslu, vinnslu og dreifingu, og líka því hvers konar menning hefur staðið að baki íslenskum landbúnaði.

Herra forseti. Ég vil óska eftir því þegar þetta mál kemur til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að ekki verði aðeins farið gaumgæfilega ofan í tæknilegu hliðina, þau tæknilegu atriði sem það kveður á um, heldur líka þau pólitísku skilaboð sem verið er að senda út til landbúnaðarins, til almennings, til neytenda, um að eitt brýnasta málið af hálfu ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sé að vega að hinum félagslega grunni sem á svo ríkan þátt í uppbyggingu og þróun íslensks landbúnaðar, íslenskrar matvælavinnslu og líka mjög öflugs hóps neytenda sem sýnir það í skoðanakönnunum að hann vill standa vörð um landbúnaðinn og þau gildi sem hann hefur byggt á á undanförnum árum og áratugum en ekki að höggva þau niður.