135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða sem hv. þingmaður flutti og hann talaði mikið um pólitísk skilaboð, hver væru hin pólitísku skilaboð þessa frumvarps sem spannar nú ekki yfir stórt svið. Hins vegar voru hin pólitísku skilaboð hv. þingmanns þau að hann vill tryggja að bændur verði örugglega áfram í viðjum fátæktar. Hann vill tryggja að engin framleiðniaukning verði hjá bændum, hann vill tryggja að þeir séu fastir í kerfi þannig að þeir geti sig hvergi hreyft. Í reynd er hv. þingmaður að tala fyrir því að engu megi breyta í þessu kerfi til að aðstoða bændur við að bæta sinn hag og bæta sín kjör. Það eru hin pólitísku skilaboð. Það er ekkert nýtt í þessu, ekkert nýtt lagt fram, engar hugmyndir um hvernig bæta megi og efla hag bænda, aðeins eitt og það er að standa vörð um óbreytt ástand en ekkert innlegg, engin sýn. Það er ekkert lagt til þessarar umræðu nema orð sem hafa afar lítið og takmarkað innihald.