135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:49]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eftir að ég hafði hlustað á ræðu hv. 10. þm. Norðvest., Höskuldar Þórhallssonar, fannst mér hún bæði málefnaleg og efnisleg og hófleg, en eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar fannst mér eitt andartak að Framsóknarflokkurinn væri orðinn óður markaðshyggjutrúboði. Í samanburði við hina ótrúlegu afturhaldsræðu hv. þm. Jón Bjarnasonar varð samanburðurinn við Framsóknarflokkinn þannig að Framsóknarflokkurinn var orðinn eins og markaðshyggjutrúboði á borð við Friedman eða einhvern slíkan, þarna var himinn og haf á milli.

Báðir hv. þingmenn viku töluvert að hugmyndum sem eru í frumvarpinu um að hverfa frá verðmiðlunargjöldunum. Það er auðvitað þannig að það býr ekkert slíkt að baki eins og hv. þm. Jón Bjarnason var að ýja að. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson spurði hvaða áhrif þetta hefði á til að mynda flutningskostnað og þá jöfnun sem þessu verðmiðlunargjaldi hefur verið ætlað að þjóna.

Við vitum að það er orðin gjörbreyting á umhverfi mjólkuriðnaðarins, á þeim vettvangi starfar núorðið eitt rekstrarfélag. Í dag er það þannig að þeir mjólkurinnleggjendur sem leggja inn mjólk sína greiða tiltekið verðmiðlunargjald sem þetta fyrirtæki innheimtir af þeim sem það fyrirtæki notar síðan til þess að greiða inn í sinn eigin rekstur. Við sjáum auðvitað að við þær breytingar sem hafa orðið eru auðvitað engin rök lengur fyrir slíku verðmiðlunargjaldi þar sem einfaldlega er verið að færa til á milli hægri og vinstri vasa, kannski rassvasans og fremri vasans, gjöld sem innheimt eru af bændum og voru á sínum tíma notuð í tilteknum tilgangi en eins og fram kemur í athugasemdum við þetta lagafrumvarp er ekki lengur.

Hér er því um að ræða gjald sem er í raun og veru engin þörf á, það er ekkert tilefni til þess að innheimta þetta gjald, það hefur ekki þau praktísku not sem það hafði hér áður og fyrr þegar það hafði þennan tilgang sem hv. þm. Jón Bjarnason var að reyna að lýsa hér áðan með tilþrifum sínum, tilefni til þessarar gjaldheimtu er einfaldlega ekki til staðar lengur. Þess vegna er verið að leggja þetta niður með því frumvarpi sem hérna er lagt fram og það er m.a. vikið að því í athugasemdunum að á sínum tíma, við lokaráðstöfun á uppsöfnuðu fé Verðmiðlunarsjóðsins, hafi því verið ráðstafað til endurskipulagningar afurðastöðvarinnar á Ísafirði. Núna er sú afurðastöð hluti af þessu rekstrarfélagi og þær tilfærslur sem þurfa að eiga sér stað þurfa ekki að koma á grundvelli verðmiðlunargjaldsins þannig að það er einfaldlega orðið úrelt, það hefur engan tilgang. Menn gætu náttúrlega varðveitt það, svona varðveislugildisins vegna, t.d. mætti fela Þjóðminjasafninu varðveislu þess, en þetta hefur ekkert með rekstur að gera og þetta hefur ekki með jöfnun að gera. Forsendurnar fyrir þessu gjaldi eru bara úr sögunni og þess vegna er engin sérstök ástæða til þess að viðhalda þessu ákvæði.

Varðandi verðtilfærsluna, sem er auðvitað stærra mál, stærra efnislega mál, þá er það þannig í dag að verðtilfærslan hefur þann tilgang að færa á milli einstakra framleiðslutegunda. Þetta getur haft þau áhrif að verði á einni tegund er haldið niðri með því að innheimt er verðtilfærslugjald af innleggjendum á mjólk. Þessu verðtilfærslugjaldi er síðan ráðstafað ýmist til þess að hækka einhverja tiltekna vöru í verði eða lækka hana. Þetta er auðvitað líka arfur frá liðinni tíð.

Það kunna að hafa verið rök fyrir því einhvern tíma að halda t.d. nýmjólk niðri í verði, ef við gefum okkur það, og verðleggja þá t.d. skyr eða jógúrt hærra. En ég held að það detti engum í hug núna árið 2007, bráðum komið 2008, að verðlagningin eigi að fara þannig fram, að sú ágæta nefnd, verðlagsnefnd búvöru, skipuð jafnágætum mönnum og hún er, eigi að hafa sérstakt ákvörðunarvald um það hvort fjölskyldurnar í landinu fái mjólkina sína dýrari eða ódýrari þegar það leiðir síðan til þess að skyrið verður ódýrara eða dýrara. Þetta hefur engin áhrif á heildarútgjöld heimilanna til kaupa á þessum mjólkurafurðum. Þetta hefur hins vegar áhrif á það hvort sá sem drekkur mikla nýmjólk fái vöruna á lægra verði eða sá sem borðar mikið af skyri.

Þetta er því auðvitað bara úrelt þing sem hefur hins vegar þau áhrif að það býr til skekkju á samkeppnismarkaðnum, þ.e. það heldur uppi verði á einhverjum tilteknum afurðaflokki en heldur niðri verði á öðrum þannig að sá sem vill koma inn og keppa, hann einbeitir sér þá að þeim vöruflokkum sem verðinu er haldið uppi á með óeðlilegum hætti, kemst inn á markaðinn, skaðar framleiðslufyrirtæki, grefur undan þessu afurðasölufyrirtæki bænda og þar með bændunum og landbúnaðinum.

Þess vegna var það þannig, og það er alveg rétt sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði áðan, þess var mjög gætt af minni hálfu að reyna að hafa sem best samráð og samstarf við verðlagsnefndina, og í þessari nefnd eiga sæti fulltrúar neytenda, þ.e. Alþýðusambands Íslands og BSRB, virðulegi forseti, Bændasamtökin og afurðastöðvarnar. Þessir aðilar eru sammála um að þetta fyrirkomulag sem við höfum viðhaft sé úrelt, það þjóni ekki tilgangi, það sé skaðlegt, þjóni ekki þeim tilgangi sem ætlað var í upphafi og menn eru sammála því að leggja þetta fyrirkomulag af. Þetta er það sem þetta frumvarp leiðir til, það er með öðrum orðum verið að hverfa frá óþarfri og skaðlegri millifærslu og verðtilfærslu sem þjónar hvorki bændum né afurðastöðvunum og er ekki til hagsbóta fyrir neytendur og þess vegna er ekki tilefni til þess að viðhalda þessu. Þær viðtökur sem mér finnst málið almennt hafa fengið eru til marks um að það er verið að reyna að þjóna hérna almennum hagsmunum og það er greinilegt að þeir fara saman.

Við vitum það t.d. að bændur hafa lengi verið þeirrar skoðunar að það ætti að hverfa frá þessari verðtilfærslu. Sömu skoðun hafa afurðastöðvarnar haft og launþegarnir, fulltrúar ASÍ og BSRB, það hefur komið fram við skoðun á þessu máli í verðlagsnefndinni að þeir komust að sömu niðurstöðu. Ég vænti þess því, virðulegi forseti, þegar menn skoða þetta í alvöru í nefnd þingsins að þá komist menn að sömu niðurstöðu og við komumst að, ég og ríkisstjórnin, ásamt ríkisstjórnarflokkunum. Mér heyrðist af viðtökum hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að ástæða sé til að ætla að Framsóknarflokkurinn standi að þessu. Hvað hv. þm. Jón Bjarnason kann að gera við skoðun málsins, það verður bara að koma í ljós. Auðvitað er það hans ákvörðun þegar hann tekur afstöðu til málsins.