135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

uppfylling ákvæða í kaupsamningi Símans.

[15:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra vék sér undan því að svara aðalspurningunni, um fordæmið sem með þessu er gefið. Telur hann það heppilegt, sem yfirmaður einkavæðingarnefndar, að fordæmi af þessu tagi sé gefið, að skýlausri kvöð í kaupsamningi sé vikið til hliðar með viðbárum af þessu tagi, að menn geri bara tilboð í eitthvert fyrirtæki úti í löndum og þar með séu þeir lausir allra mála? Eða hitt sem er sennilega sönnu nær að eigendurnir óttist að almenningur ætti kost á því að kaupa hlutina á of hagstæðu verði? Þeir vilja fá meira fyrir sinn snúð, höfðingjarnir sem fengu að hirða Símann. Einkavæðing Símans er nú þegar búin að valda þjóðinni nógum búsifjum, samanber ófremdarástandið sem hefur farið versnandi í fjarskiptamálum og engar efndir verið á því að laga þau mál, t.d. á landsbyggðinni enn sem komið er, ekki einu sinni búið að bjóða þau verkefni út núna, tveimur og hálfu ári síðar.

Mér finnast þetta rýr svör hjá forsætisráðherra og spái því að ef svona verður að verki staðið verði það eins og (Forseti hringir.) hver annar brandari eftirleiðis að þykjast setja einhverjar kvaðir eða skilmála af þessu tagi inn í kaupsamninga.