135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

álver við Húsavík.

[15:11]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eitt af þeim byggðarlögum sem hefur háð harða varnarbaráttu undanfarin ár er Norður-Þing í Þingeyjarsýslu. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hefur íbúum þar fækkað um 13% á síðustu 10 árum. Íbúum sem eru yngri en 40 ára hefur fækkað um fjórðung á sama tíma. Mörg stórfyrirtæki eru horfin af sjónarsviðinu á þessu atvinnusvæði á þessum tíma og það er mikil þörf fyrir kjölfestu í atvinnulífinu. Ég vil því spyrja um vilja ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnulíf á nýjan leik í Þingeyjarsýslu með því að standa að og styðja við uppbyggingu á álveri við Bakka á Húsavík.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra: Styður ríkisstjórnin uppbyggingu álvers við Bakka á Húsavík? Hyggst hún beita sér fyrir því að þau áform geti orðið að veruleika með því að vinna að því að afla fyrirtækinu útblástursheimilda og styrkja flutningslínur með raforku, svo að dæmi sé tekið?

Virðulegi forseti. Það þarf ekki frekar að greina frá stöðu mála þar um slóðir til að mönnum sé ljóst hvílík nauðsyn er á því að ríkisstjórnin beiti sér í atvinnuuppbyggingu á þessu svæði, sérstaklega í ljósi þess að það er ríkisstjórnin sjálf sem hefur veikt þetta svæði og önnur á landsbyggðinni hvað mest með ákvörðun sinni um niðurskurð á þorskveiðiheimildum um heilan þriðjung.