135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

álver við Húsavík.

[15:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekið neina formlega ákvörðun um þetta. Hins vegar liggur fyrir að frá tíð síðustu ríkisstjórnar er í gangi ákveðið samkomulag sem iðnaðarráðuneytið var aðili að ásamt fyrirtækinu Alcoa og sveitarfélögum í Norður-Þingi þar sem unnið er að ákveðnum málum sem lúta að könnunum á hagkvæmni og möguleikum á því að reisa þar álver. Lengra hefur málið ekki farið svo að það sé sagt alveg ærlega.

Að því er varðar síðan það sem hv. þingmaður sagði um öflun losunarheimilda hefur það ekki verið rætt neitt sérstaklega. Hins vegar vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég hef viðrað það, bæði við aðra ráðherra og einnig í ríkisstjórninni, að það sé tryggt að þær heimildir sem ríkisstjórn Íslands hefur aflað og hefur sérstaklega til ráðstöfunar vegna stórframkvæmda af þessu tagi einskorðist ekki bara við suðvesturhornið. Þau lög sem nú eru í gildi eru hins vegar þess eðlis að það er í raun hægt að hugsa sér ákveðið ferli þar sem losunarheimildir mundu allar hnappast á suðvesturhornið.

Að vísu er það þannig, herra forseti, að eins og mál hafa nú skipast á allra síðustu vikum, t.d. varðandi ákvörðun Landsvirkjunar um hvernig hún ætlar að haga orkusölu, hefur dregið úr þeim líkum. Ég vil segja hins vegar alveg skýrt að ég er þeirrar skoðunar sem byggðamálaráðherra að ríkisstjórnin eigi að beita sér fyrir breytingu á lögum um losunarheimildir sem tryggja að þær dreifist jafnt á það sem við köllum hið hefðbundna þéttbýli og líka dreifbýlið. Ég geri ráð fyrir að það svari að hluta til þeirri spurningu sem hv. þingmaður varpaði til mín, a.m.k. hvað varðaði þann þátt málsins.