135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

álver við Húsavík.

[15:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það yrði til bóta ef gerðar yrðu breytingar á viðeigandi lögum í því skyni sem hæstv. iðnaðarráðherra nefnir hér. Ég þakka honum fyrir svörin við fyrirspurnum mínum.

En mig langar að spyrja ráðherrann enn frekar: Hvenær er þess þá að vænta að ríkisstjórnin hafi tekið afstöðu til þess hvort hún styður þessa atvinnuuppbyggingu eða ekki? Hvenær má vænta þess að ríkisstjórnin hafi gert það mál upp í sínum röðum og með þeirri niðurstöðu að styðja þessa uppbyggingu eða hafna henni?

Þetta má ekki vera lengi í lausu lofti, virðulegi forseti. Menn verða að fá skýr svör sem fyrst um niðurstöðu í þessu máli innan ríkisstjórnarinnar. Ef svo fer að ríkisstjórnin leggist gegn þessari atvinnuuppbyggingu verða heimamenn og aðrir sem vilja styðja við bakið á þeim að leita að öðrum leiðum til að sækja fram á nýjan leik.