135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

álver við Húsavík.

[15:16]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það hefur ekkert komið fram hjá ríkisstjórninni sem bendir til þess að hún leggist gegn þessari framkvæmd. Þvert á móti hefur það komið fram hjá einstökum ráðherrum sem hafa tekið til máls um þetta að þeir eru því frekar hlynntir.

Hv. þingmaður spyr hvenær megi vænta þess að ríkisstjórnin taki afstöðu til málsins. Í því samkomulagi sem ég vísaði til hér áðan og er byggt á niðurstöðu ríkisstjórnarinnar sem þá sat, sveitarfélaga og þess fyrirtækis sem hefur í hyggju að setja upp eða kanna uppsetningu þessarar verksmiðju sem hv. þingmaður vísaði til stendur að fyrirtækið áskilji sér rétt til að taka sjálft ákvörðun um það hvort það hyggur á framkvæmdina fyrir — ef ég man rétt, eftir stopulu og rosknu minni — lok sumars 2008.

Þangað til held ég að hv. þingmaður geti ekki (Forseti hringir.) búist við neinni afdráttarlausri niðurstöðu, ekki síst vegna þess að þetta er líka háð því að orkan fáist sem þarna er í vinnslu.