135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[15:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. þingmanni fyrir hennar ráð. Ég geri nákvæmlega það sama og hún gerði og framsóknarmennirnir sem voru í umhverfisráðuneytinu á sínum tíma. Ég hlusta á þær ráðleggingar sem koma frá loftslagsskrifstofunni í Bonn. Hæstv. ráðherra fór eftir þeim á sínum tíma og þeim ágæta manni sem veitir henni forstöðu.

Nú hlusta ég á hann. Það kom fram á fyrirlestri sem hann hélt að skoðun hans væri sú að íslenska ríkisstjórnin ætti á þessu stigi að styðja það frumkvæði, eða hafa það, að taka upp þessa geiranálgun.

Ég get sagt hv. þingmanni það, trúað henni fyrir því hér þvert yfir salinn, að ef ég mætti velja milli íslensks ákvæðis, eins og hún nefnir svo, annars vegar og hins vegar þeirrar nálgunar sem ég hef hér lýst mundi ég gefa vinstri höndina ef hægt væri að ná henni. Hún þjónar hagsmunum Íslands miklu betur.