135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

reglur um meðferð erfðaupplýsinga.

[15:28]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mjög athyglisverð spurning kom fram hjá hv. þingmanni. Eins og hv. þingmaður minntist á er hér um að ræða hluti sem voru kannski ekki mögulegir fyrir nokkru síðan og við búum svo vel, Íslendingar, að við erum hér með fyrirtæki í fremstu röð sem er mikill styrkur fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt þjóðlíf í heild sinni.

Fljótt á litið er það í eðli sínu jákvætt þegar menn afla sér upplýsinga um sig sjálfa, sérstaklega þegar menn eru að því út frá heilsufarssjónarmiðum. Það er bara gott að fólk geti aflað sér upplýsinga um eigin heilsu og gert ráðstafanir í kjölfarið.

Eins og hv. þingmaður minntist á er myndin kannski örlítið flóknari þegar kemur að nánum ættingjum, börnum og öðrum skyldmennum, og er þá full ástæða til að fara yfir málið og önnur sambærileg og tengd. Ég hafði hugsað mér að skoða það og m.a. með því að kalla til þá aðila sem hafa tjáð sig um þetta mál eins og Læknafélagið. Innan þess vettvangs hefur augljóslega orðið umræða um málið.

Ég held að við horfum fram á sambærileg mál eða svipuð koma upp í nánustu framtíð og þess vegna munum við skoða það vel. Það er hins vegar ekki búið að taka ákvörðun um vettvanginn eða hvernig það mál verður unnið. Hins vegar liggur fyrir að við munum skoða það. Þetta er athyglisvert mál og býður upp á ýmsa möguleika en svo sannarlega líka hættur eins og hv. þingmaður nefndi.