135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

5. fsp.

[15:33]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig út í loforð allra flokka fyrir kosningar sem gefin voru í Íþróttahöllinni í Vestmannaeyjum um lækkun gjalda með Herjólfi, sem ég þekki ekki til, enda var ég á öðrum stöðum á landinu í kosningabaráttunni eins og gefur að skilja. Hann tók hér dæmi um þann kostnað sem því fylgir að fara með fjölskyldu sína frá Þorlákshöfn til Eyja.

Auðvitað er þetta mikill kostnaður alveg eins og það er mikill kostnaður hjá fólki sem þarf að fljúga t.d. frá Reykjavík til Vopnafjarðar eða Þórshafnar, það kostar 30 þús. kr., hvorki meira né minna. Þessi hái kostnaður getur auðvitað gert fólki ókleift að ferðast eins oft og það vill, en það sem ég vil segja í þessu sambandi er að ríkisstjórnin hefur komið til móts við þessi atriði eins og t.d. með fjölgun ferða og síðast en ekki síst, sem er kannski aðalatriði, þau áform sem er verið að vinna eftir úr gildandi samgönguáætlun, þ.e. að byggja upp nýja höfn í Bakkafjöru og nýja ferju til að sigla milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru á svo sem eins og hálftíma með fleiri ferðum á dag en er núna og öllu því sem þar er sett fram.

Ég vona, virðulegi forseti, að með styttri siglingarleið sem fer niður í hálftíma í staðinn fyrir þá tæpu þrjá tíma sem eru núna muni fargjaldið þarna á milli lækka þegar þetta verður komið til framkvæmda.