135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

tollalög.

229. mál
[15:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er að finna allmargar tillögur að breytingum og skulu nefndar þær helstu.

Í fyrsta lagi er lagt til að leyfisveitingar fyrir geymslusvæði ótollafgreiddra vara verði færðar frá fjármálaráðuneytinu til tollstjórans í Reykjavík í takt við þá yfirlýstu stefnu að fækka sem kostur er beinum afgreiðsluverkefnum frá ráðuneytinu.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um tollafgreiðslugengi. Lagt er til að í stað þess að miða við gengi 28. hvers mánaðar skuli tollafgreiðslugengi taka mið af daggengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands næsta virkan dag á undan. Vegna mikilla gengissveiflna undanfarin missiri hafa innflutningsaðilar haft tilhneigingu til að flýta eða draga tollafgreiðslu fram yfir mánaðamót allt eftir afstöðu tollafgreiðslugengis sem skapað hefur óeðlilegt álag hjá tollyfirvöldum. Jafnframt hefur gildandi aðferð skapað ákveðið ósamræmi í skráningu vöruviðskipta okkar við útlönd. Vegna þess er lagt til að framvegis verði notast við daggengi en ekki mánaðargengi.

Í þriðja lagi er lagt til að mótuð verði ný tegund geymslusvæðis fyrir ótollafgreiddar vörur, svokallaðar umflutningsgeymslur. Hlutverk slíkra geymslna er einungis að geyma ótollafgreiddar vörur þar til þær eru fluttar aftur af landi brott. Vörur þær sem fluttar eru í slíkar geymslur hljóta því aldrei tollafgreiðslu hér á landi.

Í fjórða lagi er lagt til að lögunum verði breytt á þann hátt að allir lögaðilar í atvinnurekstri geti rekið afgreiðslugeymslur en ekki einungis farmflytjendur og tollmiðlarar. Þessi breyting er lögð til vegna þess að það hefur sætt nokkrum vandkvæðum með framkvæmd að takmarka leyfi til reksturs afgreiðslugeymslna við farmflytjendur og tollmiðlara. Auk þessara breytinga eru lagðar til nokkrar breytingar sem koma til vegna þess að varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli hefur sem slíkt verið lagt niður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.