135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

ársreikningar.

230. mál
[15:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um ársreikninga. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem byggjast á félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2004 frá 15. desember 2004, um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað. Hluti tilskipunarinnar er tekinn upp í lög um verðbréfaviðskipti en ákvæði II. kafla tilskipunarinnar kalla á breytingar á lögum um ársreikninga. Breytingarnar lúta að upplýsingagjöf stjórnenda, annars vegar í ársreikningum þeirra félaga sem gefið hafa út verðbréf og hins vegar í árshlutareikningsskilum þeirra félaga sem gefið hafa út skuldabréf eða hlutabréf til sölu á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að afnumin verði skylda móðurfélaga og dótturfélaga þeirra, félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, til að notast við alþjóðlega staðla við samningu ársreiknings. Þeim félögum sem hér um ræðir verður eftir sem áður heimilt að beita alþjóðlegum stöðlum kjósi þau það.

Skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið taka aðeins til samstæðureikninga en ekki til reikninga móður- og dótturfélaga. Við lögfestingu reglna um alþjóðlega reikningsskilastaðla var talið rétt að láta þær reglur einnig ná til móður- og dótturfélaga. Við nánari athugun og að fenginni reynslu þykir hins vegar rétt að hverfa frá þeirri skyldu. Mikill kostnaður og fyrirhöfn fylgir því að gera ársreikninga og árshlutareikninga samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og má reikna með að þessi breyting sé til hagsbóta fyrir mörg fyrirtæki sem beita alþjóðlegum reikningskilastöðlum. Dótturfélög í samstæðum geta verið mörg og starfsemi þeirra umfangsmikil og því er ekki þörf á að skylda dótturfélag til að gera upp í samvinnu við alþjóðlega reikningsskilastaðla. Með þessari breytingu er ekki verið að minnka gæði reikningsskila hjá samstæðum né ætti hún að leiða til óhagræðis eða ónákvæmra upplýsinga til fjárfesta.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til að ársreikningaskrá verði veitt heimild til að beita dagsektum þegar félög sem eru undir eftirliti hennar vegna beitingar á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu reikningsskila sinna veita ekki umbeðnar upplýsingar. Um er að ræða félög sem hafa gefið út hlutabréf eða skuldabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu og önnur félög sem heimild hafa til að beita þessum stöðlum. Markmið þessarar tillögu er að gera eftirlit ársreikningaskrár skilvirkara og auðveldara í framkvæmd.

Í núgildandi lögum hefur ársreikningaskrá takmörkuð úrræði til að bregaðst við ef félög veita ekki umbeðnar upplýsingar. Hefur það leitt til ákveðins viðbragðsleysis eftirlitsskyldra félaga. Félög hafa dregið úr hófi að svara fyrirspurnum um ársreikningaskrár og þannig gert ársreikningaskrá erfitt um vik að bregðast við þegar upplýsingar vantar í reikningsskil. Þetta hefur sérstaklega átt við í sambandi við árshlutauppgjör. Með því að setja inn ákvæði um dagsektir fær ársreikningaskrá möguleika á að beita aðila sektum sem ítrekað bregðast ekki við beiðnum um upplýsingar. Jafnframt er lagt til að ársreikningaskrá geti átt frumkvæði að því að birta opinberlega upplýsingar um reikningsskil sem talin eru ófullnægjandi að hennar mati.

Þá er og lagt til að ársreikningaskrá geti að auki óskað eftir því að viðskipti með bréf félaga á skipulögðum verðbréfamarkaði verði stöðvuð tímabundið ef brot reynast alvarleg þar til félögin hafa farið að tilmælum hennar varðandi leiðréttingar reikningsskila. Að auki er að finna í frumvarpinu ýmsar tillögur um lagfæringar á orðalagi án þess að um eiginlegar efnisbreytingar sé að ræða. Frumvarpið miðar að því að lögin öðlist þegar gildi og skuli gilda fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.