135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru allt saman ágætar hugmyndir sem hv. þingmaður reifar en eru í rauninni það sem nefndin sem ég vitnaði til í framsöguræðunni er að fjalla um. Ég held að það sé ástæðulaust fyrir okkur að bíða ekki eftir þeirri niðurstöðu þannig að við getum tekið á þessu í heild sinni.

Auðvitað kann þá niðurstaðan að vera sú, ef þetta gengur eins vel og menn gætu best hugsað sér, að breytingin væri raunverulega ekki sú að þetta væri gert varanlegt, það væri þá bara upp á sex mánuði sem þetta frumvarp raunverulega gilti. Ef hlutirnir ganga hins vegar ekki alveg eins vel og menn hafa ætlað gæti raunin orðið sú að þetta frumvarp væri þá í gildi til næstu áramóta ef okkur tækist að afgreiða þau mál á næsta haustþingi. Ég held að það séu möguleikarnir í þessu og miðað við hver þessi mál eru og hvernig þau þróast og hvernig tímaskeiðin eru í því held ég að það sé ekki það mikið sem er unnið með því að bíða ekki eftir heildarniðurstöðu sem kæmi út úr nefndinni og framhaldsvinnu á því.