135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:12]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alltaf leiðinlegt þegar menn rökræða og nota orð eins og útúrsnúningar og þvættingur. (Gripið fram í.) Það verða nú hlustendur að dæma um og aðrir þingmenn. En ég ætla ekki að fallast alveg á dóm hv. þingmanns og segja að það sé alrétt hjá honum að þetta sé útúrsnúningur og þvættingur vegna þess að það hefur nefnilega verið þannig að eftir að breytt var í krónutölu þá hefur hlutfall skattlagningar lækkað mjög mikið, sem hlutfall af endanlegu verði. Það hefur verið í gangi bæði skattlagning vegna þess að gjöldin hafa ekki verið hækkuð í tvö ár og auk þess hefur olíuverð hækkað svo mikið að þetta er sem hlutfall af endanlegu útsöluverði alltaf síminnkandi hluti sem ríkið er að innheimta sem skatt. Við erum í reynd með þessari föstu krónutölu að niðurgreiða eldsneyti.

Ég er ánægður með það. Ég er ánægður með skattalækkanir eins og ég hef alltaf verið ánægður með skattalækkanir. En hv. þingmaður hefur ekki alltaf verið ánægður með skattalækkanir og síst af öllu þær sem hvetja til koldíoxíðmengunar. Ég hélt að hann væri umhverfisverndarsinni. En það hefur greinilega eitthvað breyst.

Varðandi það að halda fastri krónutölu á milli þessara tveggja eldsneytisgjafa þá væri íslenska ríkið, ef það tæki upp svoleiðis reglu, að vinna gegn markaðsöflum í heiminum sem ekki er talið gæfulegt. Og ef þessir nýju dísilbílar eru svona sparneytnir þá mun fólk kaupa þá hvort sem er vegna þess að þeir kosta minna í rekstri.