135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:16]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þá umræðu sem hér fer fram. Ég vil fyrst geta þess að ég er sammála því frumvarpi sem hér er lagt fram sem miðar að því að við festum þann afslátt sem verið hefur í gangi tímabundið á olíugjaldi. En mig undrar umræðan af hálfu vinstri grænna um þennan málaflokka vegna þess að vissulega er verið að tala um umhverfismál þegar rætt er um eldsneytisnotkun.

Ef ég rek í örfáum orðum það sem gert hefur verið hér á landi á undangengnum árum hafa tollar og aðflutningsgjöld verið lækkuð á fólksbílum, vöruflutningabílum og stórvirkum vinnuvélum sem þýðir að bílafloti Íslendinga er tiltölulega nýr. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í tækni og eldsneytisnotkun á þessum nýrri dísilbílum, og er ég þá að tala um fólksflutningabíla og flutningabíla, svo munar mörgum prósentum. Það er gott sem vel hefur verið gert.

Á sínum tíma þegar þungaskatturinn, eða mælagjaldið, var að mestu leyti lagður niður var hins vegar farið að selja svokallaða litaða olíu. Lituð olía er notuð á þungavinnuvélar og ýmis sérhæfð tæki og hún er ekki með þetta gjald, olíugjald, sem við fjöllum um hér. Þungavinnuvélar í landinu nota því annars vegar litaða olíu, sem ber ekki olíugjald, og hins vegar ólitaða olíu.

Ég vil að það komi fram hér, og ég hef haft þá skoðun frá því að þessi kerfisbreyting varð, að það hefði átt að hafa sama gjald á allri landolíu, dísilolíu, sama hvort hún er notuð á einkabíla, fólksflutningabíla, þungavinnuvélar eða hvaða tæki sem væri. Þá ætti að hugsa það gjald sem umhverfisskatt, ekki alltaf binda okkur við að þetta fari til Vegagerðarinnar einvörðungu. Á sama hátt og það hefur verið hvati hjá þeim sem reka þungaflutningabíla er hvatinn hjá þeim aðilum sem eru með þungavinnuvélar að vera með sem nýjastar vélar og vélar sem nota sem minnsta olíu. Það er sannkölluð umhverfisumræða. Þess vegna undrar mig að vinstri grænir skuli ekki taka þann vinkil að við eigum að horfa á þetta sem mengunarskatt á dísilolíu og bensín líka þannig að hvatinn verði hjá öllum sem nota dísilolíu á landi að nota sem minnst og kaupa þannig tæki sem minnst nota. Þá erum við að minnka útblásturinn.

Ef þetta hefði verið gert þyrfti olíugjaldið ekki að vera jafnhátt og raun ber vitni ef það færi á alla landnotkun. Því vil ég fyrst og fremst koma inn í umræðuna og ég tel að við höfum aðeins átt orðastað um þetta sem um umhverfismál fjöllum. Ég held að það sé mjög góð umræða hvað þetta varðar.