135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

kjararáð.

237. mál
[16:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú greinilega verið að hlaupa hér undir bagga með ákveðnum hópi manna sem hefur ekki fengið þá úrlausn hjá kjararáði sem hann vonaðist til, þ.e. að fá að falla þar undir. En mér sýnist í raun og veru ljóst að með þessu sé verið að leggja til að binda það í lög hverjir falli undir kjararáð og hverjir ekki.

Og er ekki úrskurðarvald kjararáðs orðið nánast hlægilegt í ljósi þess hvernig það túlkaði lögin og hvernig úrskurði það felldi? Og því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra, má álykta sem svo að í kjölfar þessarar lagabreytingar, að óbreyttri túlkun kjararáðs á lögunum að öðru leyti, þá sé sjálfgefið að kjararáð muni hafna öllum sem reyna að sækja inn undir ráðið héðan af? Því úr því það hafnaði þessum hópum, sem hæstv. ráðherra leggur nú til að löggjafinn setji hér inn með valdi, þá er varla ástæða til að ætla að það fari að taka einhverja aðra inn sem jafnvel eru neðar í stjórnkerfinu.

Er þá ekki bara spurning hvort ekki sé hreinlegast að ganga bara frá þessu með lögunum. Hverjir heyri þarna undir og punktur. Þannig að kjararáð sé leyst undan því að vera fá umsóknir og hafna mönnum, sem mér sýnist að hljóti að vera eiginlega eðlilegt að álykta í ljósi reynslunnar á þessu ári.

Ég vil því gjarnan heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra telji að það geti hreinlega komið til greina að ganga þannig frá málinu að þetta sé bara einfaldlega ákveðið í lögunum og kjararáð hafi eingöngu það hlutverk að úrskurða um laun þeirra sem Alþingi hefur með lögum ákveðið að heyri þar undir.