135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

kjararáð.

237. mál
[16:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni að verði þetta frumvarp að lögum er þessi staða orðin nokkuð skýr hvað varðar þá aðila sem falla undir kjararáð og sjálfsagt hægt að draga ályktanir svona í áttina að því sem hv. þingmaður gerir.

En það sem maður veit nú ekki alla hluti fyrir þá sé ég ekki sérstaka ástæðu til að ganga lengra hvað þetta varðar heldur en þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Það geta komið upp einhver tilvik, einhverjar aðstæður, einhverjar stöður þar sem kjararáð gæti komist að niðurstöðu sem við sjáum ekki endilega fyrir í dag og gæti verið að fullu réttmætt samkvæmt lögunum.

Þannig að ég held að það sé engin sérstök ástæða til þess og ég held að sú niðurstaða sem hér er í frumvarpinu sé nægjanleg og að við getum vel við unað.