135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[16:48]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í stuttu andsvari fagna þessu frumvarpi. Mér þykir sem þarna sé tekið mikilvægt skref. Það er sannarlega verkefni sem er hvað erfiðast fyrir hvert foreldri og hverja fjölskyldu að ganga í gengum, að horfa upp á börn sín veikjast. Þetta eru greiðslur sem við öll sem foreldrar vonumst að sjálfsögðu til að þurfa aldrei að nota. Ég held að ég tali fyrir munn allra foreldra í því efni. Ég fagna frumvarpinu sem mikilvægu og stóru skrefi í þessu máli.

Ég vek líka athygli á öðru þessu tengdu, að með bættri meðferð og auknum árangri í lækningum hefur orðið til ný kynslóð barna sem hefur notið meðferðar og góðs árangurs af meðferð. Þar eru börn sem hafa læknast af ýmsum meinum svo sem krabbameini, hvítblæði og þess háttar sjúkdómum. Ég vek athygli á því að þarna er verkefni sem lýkur ekki með því að sjúkdómurinn læknist vegna þess að margs konar vandamál geta komið upp í kjölfarið. Ég veit að hugað er að þeim málefnum og ráðherra hefur gefið þeim gaum í vinnu sinni. Að endingu vil ég enn á ný fagna þessu skrefi.