135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[17:01]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að fagna því að þetta frumvarp er komið í þingið. Þetta er verulega mikil réttarbót fyrir foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna eins og við vitum. Lögin eins og þau eru í dag eru í raun til vansa. Og sú lagabreyting sem gerð var síðastliðinn vetur náði skammarlega skammt því miður og kom alls ekki til móts við þörf þessa hóps í samfélaginu.

Þetta frumvarp, eins og hæstv. ráðherra nefndi í framsögu sinni, kemur hingað í framhaldi af samþykkt okkar á vordögum um aðgerðaáætlun í málefnum barna sem kom inn í stjórnarsáttmálann í framhaldi af stefnu Samfylkingarinnar um Unga Ísland þar sem var tekið heildstætt á málefnum barna. Ég get ekki annað en fagnað því og gleðst yfir hversu langt er gengið í þessu frumvarpi.

Varðandi umræðuna áðan um umönnunargreiðslur og ýmsan kostnað foreldra langveikra barna þá er það svo sannarlega rétt að það er margur kostnaður sem fellur til. Nú í sumar eða í haust sat ég fund foreldra krabbameinssjúkra barna þar sem foreldrarnir fóru yfir þá erfiðleika sem þeir ganga í gegnum þegar börnin þeirra eru alvarlega fötluð eða veik og það var svo sannarlega átakanlegt oft að hlusta á þá frásögn. Þar var einmitt nefnt að það þyrfti að koma á áfallahjálp fyrir foreldra og ýmislegt fleira. En hér er verið að taka á fjárhagslegum stuðningi til þess að koma til móts við foreldra sem verða frá vinnu langtímum saman vegna alvarlega veikra barna. Síðan taka náttúrlega önnur lög á öðrum kostnaði, eins og til dæmis almannatryggingalögin, lögin um félagslega aðstoð og svo fleiri þættir eins og til dæmis greiðsluþátttaka vegna hjálpartækja og svo framvegis, ferðakostnaðar og fleira sem heyrir allt undir almannatryggingarnar. Auðvitað þurfa slík ákvæði alltaf að vera í endurskoðun.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi hér umönnunargreiðslurnar í lögum um félagslega aðstoð sem snúa að öldruðum. Ég hef verið á þeirri skoðun að þær greiðslur hafi ekki verið nægilega háar og erfitt þegar fólk þarf að sækja stuðning á marga staði. Þannig að það eru auðvitað þættir sem við þurfum að athuga þegar við skoðum almannatryggingalögin og ég geri nú ráð fyrir að það komi einhverjar lagabreytingar hér inn í vetur sem snúa að þeim. (KHG: ... nefndinni.)

En það sem snýr að þessum málum, þ.e. greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, þá er geysilega mikil réttarbót hér á ferðinni. Ég get ekki ímyndað mér annað en að allir flokkar taki undir og styðji þetta frumvarp. Það geri ég að minnsta kosti og fagna því að málið skuli komið fram og vonast til þess að það verði afgreitt hér í gegn fljótt og vel.