135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[17:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta þingmál núverandi félagsmálaráðherra á vorþingi eða sumarþingi í júní síðastliðnum var að koma fram með þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna, sem Alþingi Íslendinga samþykkti. Ég var einn af þeim sem stóðu þá í þessu ræðupúlti og gagnrýndu meðal annars að margt væri óljóst um það hvernig ætti að hrinda þessari áætlun í framkvæmd og fannst að það þyrfti að skýra línurnar betur hvað þau mál áhrærir. En hæstv. ráðherra er hér kominn fram með eitt af fyrstu málum til þess að hrinda þessari aðgerðaáætlun í framkvæmd sem ég fagna og óska hæstv. ráðherra til hamingju með glæsilegan árangur hvað þessi mál varðar.

Það var stigið ákveðið skref á síðasta kjörtímabili til þess að bæta kjör foreldra langveikra barna. En því miður virðast þær breytingar ekki hafa skilað sér til þessara hópa sem sýnir að aðgerða og breytinga var þörf því reynslan af framkvæmd laganna var sú og hefur verið sú að mjög fáir foreldrar hafa sótt um greiðslur á grundvelli þessarar löggjafar sem var samþykkt á árinu 2006. Alls höfðu tíu umsóknir borist til Vinnumálastofnunar sem annast þessa framkvæmd. Það segir okkur að einhver pottur var brotinn í þeirri löggjöf sem var samþykkt á sínum tíma og ber að viðurkenna það.

Ég vil óska ráðherra enn og aftur til hamingju með þennan áfanga sem fyrsta skref í því að koma til framkvæmda aðgerðaáætlun til þess að styrkja stöðu barna og ungmenna sem er þverpólitískur stuðningur við hér í þinginu.

Eins og kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi þá snýr það eingöngu að fjárhagslegri afkomu og aðstæðum þessara fjölskyldna. Við þekkjum það og margar dæmisögur eru til um það hversu miklir erfiðleikar eru því samfara að gegna því mikilvæga hlutverki að annast langveikt barn. Viðkomandi foreldrar geta oft ekki stundað sína atvinnu og leiðir það oftar en ekki til þess að fólk lendir í greiðsluerfiðleikum og þessu frumvarpi er ætlað að koma til móts við þau vandamál.

Hæstv. forseti. Ég lýsi enn og aftur stuðningi í grundvallaratriðum við þetta frumvarp. Ég legg samt áherslu á að menn haldi áfram að skoða umhverfið sem þessar fjölskyldur búa við. Hæstv. ráðherra hefur skipað starfshóp sem nokkur fagráðuneyti eiga fulltrúa í ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, til að fara yfir aðra þætti sem snerta meðal annars þjónustu við þessar fjölskyldur. Gert er ráð fyrir að þessi starfshópur skili tillögum til ráðherra fyrir 15. nóvember árið 2008 þannig að það á að vinna hratt og vel að þessum mikilvægu málum. (Félmrh.: 15. febrúar.) 15. febrúar, árið 2008. Þannig að það á að vinna hratt að þessum málum og ég fagna því sérstaklega.

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp og lýsi því yfir að við framsóknarmenn fögnum þessu frumvarpi hæstv. ráðherra sem er mikið framfaraskref. Það bíður okkar í félagsmálanefnd þingsins að fara mjög ítarlega yfir þetta frumvarp og kanna hvort að allir varnaglar séu þar negldir því hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og við munum að sjálfsögðu í vinnu í hv. félagsmálanefnd fara mjög ítarlega yfir þetta mál sem ég held að sé þverpólitískur stuðningur við.