135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

stéttarfélög og vinnudeilur.

40. mál
[17:33]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Þetta frumvarp gengur út á að laga stöðu launþega og er mjög þarft. Einn hópur launþega hefur þó farið verr en aðrir út úr samningum við vinnuveitendur sína og það eru sjómenn. Hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar hafa ekki einungis verið samningslausir í fleiri daga, eins og kemur fram í ágætri skýrslu sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson minntist á, heldur hafa þeir líka verið að vinna eftir bráðabirgðalögum í fleiri ár. Í skýrslunni sem fylgir frumvarpinu kemur fram að það er í fjórgang sem sjómenn eru á bráðabirgðalögum.

Ekki má gleyma því að hópur sjómanna hefur enga kjarasamninga. Sjómenn á skipum undir 12 tonnum hafa aldrei verið á kjarasamningi og er það sérmál sem þarf að taka á þegar verið er að ræða kjaramál. Ekki er hægt að bera það á sjómenn að þeir hafi ekki haft biðlund eða þolinmæði þegar samningar hafa runnið út og verið er að reyna að ná sáttum. Þeir hafa verið mjög umburðarlyndir gagnvart vinnuveitendum sínum og oft beðið allt upp í 450 daga eftir því að ná kjarasamningum, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, og oftar en ekki fengið á sig bráðabirgðalög þegar þeir hafa farið í aðgerðir.

Ýmislegt fleira spilar auðvitað inn í. Hið svokallaða fiskveiðistjórnarkerfi, hið alræmda kerfi sem við búum við, hefur haft áhrif til hins verra í kjarasamningagerð og laun sjómanna eru mjög misjöfn á milli skipa. Sjómenn búa við mjög misjöfn launakjör. Stjórnmálamenn hafa síðan borið ábyrgð á því að setja bráðabirgðalög í tíma og ótíma og hafa sjálfstæðismenn farið fremstir í flokki. Síðustu tólf árin hafa þeir haft góðan stuðning framsóknarmanna í því og þar áður annarra stjórnmálamanna.

Ég þekki kjaramálin vel. Ég var forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins í tvö ár og ég var formaður Vísis, félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, í sjö ár. Þetta höfum við verið að kljást við í kjarabaráttu og teljum því að frumvarpið sé mjög nauðsynlegt til að bæta stöðu allra launþega en ekki bara sjómanna. En þetta munar kannski sjómennina mest allra launþega. Ég hvet þingmenn til að styðja frumvarpið.

Ég get ekki annað en vakið athygli á því að í þingsal eru aðeins fjórir þingmenn. Hinir þingmennirnir eru einhvers staðar annars staðar. Þeir virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessu máli frekar en mörgum öðrum málum sem snúa að sjávarútvegi og launakjörum sjómanna. (Gripið fram í: Sex þingmenn.) Það eru sex þingmenn í salnum.