135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru.

47. mál
[17:39]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru sem beint er að börnum. Þetta er á þskj. 47, 47. mál, og felur í sér að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga matvöru sem beint er að börnum ef matvaran inniheldur mikla fitu, sykur eða salt, með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna. Ráðherra leitist í þessu skyni m.a. við að ná samstöðu með framleiðendum, innflytjendum og auglýsendum um að þessar vörur verði ekki auglýstar í sjónvarpi þegar barnaefni er á dagskrá og þá ekki fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin.

Offita er hratt vaxandi heilbrigðisvandamál, einkum í hinum vestræna heimi og er Ísland engin undantekning þar á. Hafa rannsóknir sýnt að offita er í raun orðin faraldur í íslensku þjóðfélagi en hún eykur stórlega líkur á ýmsum sjúkdómum, t.d. sykursýki 2 eða svokallaðri áunninni sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, ristilkrabbameini, kæfisvefni og stoðkerfissjúkdómum. Mig langar líka að nefna ýmis félagsleg vandamál, t.d. einelti, sem þessi þróun hefur í för með sér.

Ég hef flutt þetta þingmál áður ásamt fleiri þingmönnum. Frá því það var flutt síðast hafa íslensk yfirvöld ásamt yfirvöldum í Evrópu, þeim sem eru aðilar að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, gengist undir Evrópusáttmálann um baráttu gegn offituvanda. Skrifað var undir þann sáttmála fyrir nákvæmlega einu ári og tveimur dögum, 17. nóvember 2006, og þar eru línur lagðar að því hvernig berjast eigi gegn þeirri heilbrigðisvá sem offita er.

Bent er á ýmsar leiðir, m.a. þær sem ég nefni í greinargerð með þingsályktunartillögunni, t.d. aukna hreyfingu, aukna hollustu o.s.frv. En einnig er lagt til að stjórnvöld í þessum ríkjum setji reglur um að beina ekki auglýsingum og markaðssetningu að börnum. Í Evrópusáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Sérstakt regluverk ætti að innihalda reglur sem draga verulega úr umfangi og áhrifum auglýsinga á orkuríkum mat og drykk, einkum þeim sem beinast að börnum, með alþjóðlegri skírskotun hvað varðar reglur um markaðssetningu fyrir börn á þessu sviði, sem og reglur um öruggara vegakerfi sem stuðlar að hjólreiðum og gönguferðum.“

Á öðrum stað í sáttmálanum er getið um mikilvægi þess að hugað sé að viðkvæmum þjóðfélagsþegnum, eins og börnum og unglingum, að reynsluleysi þeirra og trúgirni sé ekki féþúfa markaðsafla. Víðar í sáttmálanum er getið um þetta og er það talið lykilatriði í forvörnum að einstök lönd leggi áherslu á tilteknar aðgerðir. Eru þar nefndar aðgerðir sem eru fólgnar í því að minnka markaðsþrýsting, einkum gagnvart börnum.

Ég vitna í þennan sáttmála sem við höfum gengist undir. Síðan það var gert hefur lítið gerst í þessum málum annað en að þetta þingmál er til umræðu á Alþingi nú. Ekki er verið að leggja til boð og bönn þó svo að ýmis ríki hafi nú þegar bannað auglýsingar sem beint er að börnum á þeim tímum sem börn eru að fylgjast með fjölmiðlum, þá að horfa á sjónvarp. Bretar hafa bannað þetta. Norðurlöndin hafa gefið út yfirlýsingu um að auglýsingum verði ekki beint að börnum. Bréf komu frá norrænu ráðherranefndinni um það mál nú nýverið þar sem lagt er til að markaðssetningu verði ekki beint að börnum hvað varðar óholla matvöru.

Ekki er verið að leggja til að við leggjum bann við þessu heldur að hæstv. heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir því að framleiðendur, auglýsendur og innflytjendur taki höndum saman um að nota ekki þessa aðferð í markaðssetningu sinni. Þarna er líka verið að höfða til bæði siðferðiskenndar og ábyrgðar þeirra fyrirtækja og þeirra aðila sem eiga í hlut.

Þegar verið er að ræða um hollustu og börn er ábyrgð foreldra auðvitað mest og ekki er dregið úr þeirri ábyrgð hér. En það kemur ekki í veg fyrir að aðrir aðilar í samfélaginu axli sína ábyrgð á þeirri þróun sem er orðin, og eykst sífellt, hvað varðar aukna offitu og ofþyngd. Það ber að koma í veg fyrir að sífellt sé verið að ota óhollum mat að börnum og ungmennum án þess að hirða um afleiðingarnar.

Við vitum að kostnaður í heilbrigðiskerfinu hækkar sífellt og það að sporna við offitu er líka leið til að sporna við auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu og reyna að auka líka lífsgæði almennings og barna. Við vitum að matarvenjur mótast snemma á lífsleiðinni og feitt barn verður feitur fullorðinn einstaklingur. Það er því mikilvægt að koma í veg fyrir að offita barna aukist enn frekar en orðið er. Nú á fimmta hvert barn í Evrópu við ofþyngd að stríða. Það eru uggvænlegar upplýsingar og þess vegna hafa allar þessar alþjóðastofnanir gripið til aðgerða.

Evrópusambandið sendi einnig frá sér hvítbók nú í haust um baráttu gegn þessari vá. Þar er tekið á auglýsingum sem beint er að börnum. Eru ríki Evrópusambandsins hvött til að setja reglur sem koma í veg fyrir að markaðssetningu sé beitt á þennan hátt.

Virðulegi forseti. Ég hef áður mælt fyrir þessu máli hér í þingsal. Síðan þá hefur ýmislegt gerst í þessum efnum en þó eru engar reglur hér á landi um takmörkun á auglýsingum á óhollri matvöru sem beint er að börnum. Ég er sannfærð um að núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra mun taka á þessum málum. Hann hefur sagt að hann leggi gífurlega áherslu á forvarnir og mikil forvörn er í því að setja slíkar reglur. Slíkar reglur eru einungis eitt atriði af mörgum. Það þarf að auka hreyfingu og tryggja að börn hafi aðgengi að hollum mat í leikskólum og skólum og hvar sem þau eru yfir daginn. Það þarf að upplýsa foreldra um þessi mál o.s.frv. Huga þarf að mjög mörgum þáttum.

Ég tek hér fyrir einn þátt, sem eru auglýsingar. Við vitum að börn eru trúgjörn og þau eru viðkvæm fyrir auglýsingum. Það er líka áhyggjuefni, sem komið hefur fram í rannsóknum, að flestar auglýsingar sem eru sýndar þegar börn eru að horfa á sjónvarp eru matarauglýsingar. Gerð var rannsókn á því hvaða matarauglýsingar það væru og var stærsti hlutinn auglýsingar á óhollri matvöru, mjög sætum drykkjum, jafnvel gosdrykkjum, og ýmsu skyndibitafæði. Ég tel mjög mikilvægt að fjölmiðlar axli sína ábyrgð og tryggi að börn séu ekki útsett fyrir auglýsingum sem þessum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málið fari, að lokinni þessari umræðu, til umfjöllunar í hv. heilbrigðisnefnd enda er málinu beint til hæstv. heilbrigðisráðherra.