135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru.

47. mál
[17:58]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir undirtektirnar við þetta mál. Hv. þingmaður talaði um að við þyrftum kannski að ganga lengra. Ég var á þeirri skoðun þegar ég lagði málið fram fyrst og var mjög ákveðin í því að við þyrftum að setja mjög strangar reglur og banna auglýsingar. Ég held samt að við náum meiri árangri ef við förum mýkri leið að þessu markmiði en það getur vel verið, ef það gengur ekki, að setja þurfi lög um þetta. Aðrar þjóðir hafa þurft að gera það, ekki aðeins Bretar heldur fleiri þjóðir.

Það er rétt að auðvitað væru þessir aðilar ekki að auglýsa í barnatímum nema vegna þess að þeir vita að það ber árangur. Þetta hefur áhrif og þetta skilar sér, annars væru menn ekki að auglýsa á þessum tíma. Ég held að full ástæða sé til að skoða það að leyfa ekki auglýsingar í barnatímum og í kringum barnatíma og það er eiginlega lagt til hér.

Varðandi anorexíu og búlimíu þá lagði heilbrigðisnefnd fram þingsályktunartillögu á 131. löggjafarþingi, öll heilbrigðisnefnd, um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Þar var einmitt tekið á þessum þætti. Það er ekki bara offita, það eru átraskanir og fleira sem hrjáir börn í velferðarsamfélagi okkar. Þar var tekið á þessu og ástæðan fyrir því að það kemur ekki inn í þetta þingmál er sú að við vorum búin að afgreiða það mál, það var samþykkt á Alþingi og nefnd tók til starfa í framhaldi af þeirri þingsályktun. Hér er verið að taka á auglýsingunum og það er rétt sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir, við verðum að gera eitthvað í málinu og setja þarf mjög strangar reglur um þessi mál.