135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

raforkulög.

43. mál
[18:30]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það skiptir miklu máli í viðskiptum í landinu að hafa ákveðið gagnsæi. Ég er sammála því. En þetta tal um að leyndin sé sérstakt hagsmunamál fyrir þennan orkumarkað held ég að sé mikill misskilningur. Ég held reyndar að það sé enginn hræddur við að ræða þetta við hv. þingmann. Ég er a.m.k. fyrir mína parta ekki hrædd við að tala um orkuverð til stóriðju gagnvart orkuverði til almennra notenda. Ég hef engar áhyggjur af því og ég held að menn geri oft lítið úr því að stórnotendur eru í allt öðrum sporum en almenningur í landinu. Ég er ekki að segja að ekki megi lækka orkuverðið með einhverjum hætti til almennings, ef það er það sem við erum að tala um.

Það er tvennt ólíkt að selja orku til stórra notenda annars vegar og hins vegar til almennings. Það er töluverður munur á því. Það er hægt að útskýra það. Ég er ekkert hrædd við þá umræðu. Ég held að enginn sé hræddur við það. Ákvörðunin sem var tekin á sínum tíma var reyndar breyting á þeirri afstöðu sem hafði verið fram að því. Ég man ekki betur en að í lögum um Landsvirkjun hafi áður verið sérstakt ákvæði um að gera ætti verðathugun á almenna markaðnum annars vegar og stóriðjumarkaðnum hins vegar. Ég held að það hafi verið tekið út, ekki síst vegna breytinga á raforkumarkaði. Ég held að það sé alls ekki vegna þess að menn hafi hugsað sér eitthvert leynipukur til lengri tíma og Landsvirkjun sé í einhverju pukri og laumist um allt, eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon virðist vera með á heilanum.

Það væri kannski ráð að hann færi að snúa sér að annarri umræðu fremur en að tala um að opinber fyrirtæki gangi um með frekju og offorsi, með byssu í annarri hendinni og seðlabúnt í hinni, sem mér fannst afskaplega ómaklegt af hv. þingmanni að orða með þeim hætti.