135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:36]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi vegna þess að hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir okkar, þ.e. umræða um EES-samninginn. Mér finnst sú umræða fara allt of sjaldan fram innan veggja þingsins. Því fagna ég þessari umræðu mjög og vonast til að við eigum eftir að eiga dýpri og lengri umræður um þetta í framtíðinni.

Ég vil að það komi skýrt fram vegna þess að þingmaðurinn spurði hvað nýtt hefði verið að gerast núna sem hefði valdið því að ég hefði sagt það sem ég sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í gær. Það nýja sem var að gerast er það að við lögðum fram skýrslu, ég og Evrópuþingmaðurinn Diana Wallis sem hæstv. ráðherra nefndi. Í þessari skýrslu förum við mjög ítarlega yfir þróun Evrópusambandsins á þeim 15 árum sem EES-samningurinn hefur verið í gildi og skoðum hvaða áhrif hún hefur haft á EES-samninginn sjálfan og sambandið við hann. Og það er auðvitað alveg skýrt fyrir hverjum einasta manni sem kynnir sér það mál, og aðrir hafa sagt það á undan okkur, að þrjár stækkanir á Evrópusambandinu, aukið samstarf á ýmsum sviðum, svo sem evran, Schengen og sömuleiðis margar breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins, hafa valdið gríðarlegum breytingum á Evrópusambandinu sjálfu. Þetta hefur valdið því t.d. að skilin á milli innri markaðarins og annarra þátta innan Evrópusambandsins eru orðin óljós sem veldur því að erfiðara er að eiga við EES-samninginn, sem verður aftur til þess að tafir eru í innleiðingu ESB-tilskipana hér á landi. Sömuleiðis er formleg aðkoma okkar að ákvörðunartöku eða undirbúningi mála í gegnum framkvæmdastjórn ESB. Í dag hefur valdatilfærsla orðið til, stofnanamynd Evrópusambandsins er gerbreytt og núna hefur Evrópuþingið hvað mest að segja í öllu þessu. Þess vegna hljótum við skýrsluhöfundar að spyrja hvað hægt sé að gera til að auka áhrif okkar (Forseti hringir.) sem störfum innan EES-samningsins og auka aðkomu okkar á ákvarðanatöku innan ESB. Það er allt og sumt, hv. þingmaður. Þetta voru spurningarnar en þær eru vissulega stórar.