135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:41]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það blasir við og flestir viðurkenna það að EES-samningurinn hefur skilað okkur feikilegum ábata sem samfélagi síðasta áratuginn eða svo. Þess vegna er það eitt stærsta hagsmunamál okkar Íslendinga í dag í samskiptum okkar við Evrópusambandið, hvort samningurinn dugi áfram eins og hann hefur gert svo prýðilega hingað til eða hvort við þurfum að huga að öðrum leiðum. Þá er náttúrlega algert grundvallaratriði að taka þar til sífelldrar skoðunar og pólitískrar umræðu hver staðan er gagnvart Evrópusambandinu. Þess vegna var nálgun hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um lýðræðislega stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu og þann lýðræðishalla sem má segja að sé uppi út af innleiðingu gerða og tilskipana án aðkomu okkar að Evrópuþinginu og hinu lýðræðislega ferli innan sambandsins, afskaplega skynsamleg og tímabær nálgun og umræða hjá hv. þingmanni og fagna ég því mjög. Mér þótti þetta mjög athyglisvert viðtal og ágætt að það sé til umræðu í dag hvort samningurinn dugi áfram og hver staða hans verði og sé í gerbreyttu Evrópusambandi, sem telur nú næstum því helmingi fleiri þjóðir en þegar samningurinn var gerður fyrir rúmum áratug.

Auðvitað þurfa þessi mál sífellt að vera til endurskoðunar og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í vor segir að skýrsla margumræddrar Evrópunefndar sem skipuð var fulltrúum allra flokka verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu. Í því samhengi hefur ríkisstjórnin boðað að skipuð verði sérstök Evrópuvakt sem fylgist með þessum málum, gaumgæfi sífellt og stöðugt hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu og í gegnum samninginn o.s.frv. Þess vegna fer það mjög vel saman við þá nálgun sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir var með í viðtalinu í gær og varð tilefni umræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sem nú verið hefur einn rammasti Evrópusinninn, a.m.k. í Framsóknarflokknum.