135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:47]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Líklega hefur enginn milliríkjasamningur reynst íslensku þjóðinni jafn vel og EES-samningurinn. Sú staðreynd er hvatning til þess að við hugleiðum hvernig við getum tryggt að hann haldi áfram að fullnægja þörfum okkar og verði áfram sá aflvaki framfara og efnahagslegrar velmegunar sem hann hefur verið undanfarin ár.

Ekki er hægt að líta fram hjá því að þær breytingar hafa orðið á Evrópusambandinu á undanförnum árum að lýðræðisleg áhrif hafa aukist mjög við töku ákvarðana með aukinni aðkomu Evrópuþingsins. Við búum hins vegar við EES-samning sem er embættismannasamningur byggður upp á forsendum sem lágu til grundvallar ákvörðunartöku í Evrópusambandinu á þeim tíma sem samningurinn var gerður.

Það er því sífellt vandamál okkar að reyna að koma því svo fyrir að við höfum með sama hætti lýðræðisleg áhrif á ákvörðunartöku í svo miklum mæli sem mögulegt er innan Evrópusambandsins að því er varðar þær ákvarðanir sem síðan eiga eftir að gilda á Íslandi.

Ég fagna sérstaklega þeirri skýrslu sem hér er til umfjöllunar frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og Diönu Wallis sem ég held að sé miðuð að því að reyna að greina þennan vanda. Ég fagna líka niðurstöðu Evrópunefndarinnar í vetur og tel mjög brýnt að þingið hrindi þeim breytingum í framkvæmd hvað varðar aðkomu utanríkismálanefndar að Evrópusamstarfinu sem þar var kveðið á um.

Það hlýtur að vera verkefni okkar að efla lýðræðislega aðkomu okkar sem kjörinna fulltrúa að ákvörðunum sem síðar eiga eftir að gilda hér á landi og við verðum að einbeita okkur að því verkefni. Það er ekki auðvelt með þann samning sem við höfum en ég held að við eigum að vinna á þeim grunni.