135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:52]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ekki er nóg með að stjórnarflokkarnir tali lítið saman og tali út og suður í mörgum málum heldur er líka, (Gripið fram í: Himinn og haf.) — ég segi ekki himinn og haf — mikil ósamstaða innan Samfylkingarinnar um þetta mál. Umrædd orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, um að í raun þurfi að taka upp EES-samninginn, eru fallin dauð niður eftir að hæstv. umhverfisráðherra, og starfandi utanríkisráðherra, kom hingað upp og sagði að ekki væri pólitískur vilji til að taka samninginn upp.

Það er ábyggilega hárrétt hjá hæstv. umhverfisráðherra miðað við það hvernig gekk þegar farið var í viðræður við Evrópusambandið árið 2003. Þá átti að ræða um fjóra mikilvæga liði og var ekki nema einn þeirra tekinn á dagskrá. Hann varðaði aðgang að mörkuðum og við fengum eitthvað örlítið út úr því.

Það virðist vera hægt að tala mikið í þessu stjórnarsamstarfi og í þessum stjórnmálaflokkum en oft er æðilítið á bak við það sem sagt er. Það gerðist einmitt á þessum drottins degi. Það var lítið á bak við það sem kom fram.

Við getum svo talað um að efla aðkomu Alþingis og það er mjög gott mál. Það mál hefur verið talað um alveg síðan við urðum hluti af EES-samningnum. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert viljað hlusta á það. Það er algjörlega nýtt ef einhver vilji er fyrir því í Sjálfstæðisflokknum að fara að sinna þessum málum gagnvart Evrópusambandinu. Það hefur ekki verið fram til þessa. Davíð Oddsson, að minnsta kosti á meðan hann var formaður, mátti yfirleitt ekki heyra á Evrópusambandið minnst. [Hlátur í þingsal.]

En ég verð óskaplega glöð ef Sjálfstæðisflokkurinn er vaknaður (Forseti hringir.) af þyrnirósarsvefni hvað þetta varðar. Það er þó alla vega eitthvað sem fæst út úr þessari umræðu. (Gripið fram í.)