135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[13:57]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Húsnæðismálin bar á góma í utandagskrárumræðum um efnahagsmál í síðustu viku og ég tel ljóst að þetta hvílir ekki einungis á þingmönnum heldur á landsmönnum öllum. Eins og við þekkjum er mun almennara hér á landi en annars staðar í Evrópu að fólk eigi húsnæði sitt fremur en leigi. Samhliða þeirri þróun hefur leigumarkaðurinn hér verið mjög vanþróaður og mikill skortur á leiguhúsnæði, hvort sem er á almennum markaði eða félagslegum.

Þegar viðskiptabankarnir fengu aðgang að íbúðalánamarkaðnum sumarið 2004 og lánshlutfall Íbúðalánasjóðs var hækkað jókst til muna aðgengi almennings að lánsfé. Það voru ekki síst lægri vextir og hærra lánshlutfall sem gerði það að verkum að fasteignamarkaðurinn fór á fullt skrið.

Nú eru hins vegar blikur á lofti eins og sést á vaxtaþróun. Fyrir þremur árum voru vextirnir 4,15% en vextir Glitnis og Kaupþings hafa hækkað um 70% á þeim þremur árum sem liðin eru og núna í nóvember voru vextir Kaupþings á íbúðalánum til nýrra lántakenda orðnir 7,15%.

Það er ekki endilega víst að fasteignamarkaður dragist saman. Menn greinir á um það. Sumir telja markaðinn tiltölulega stöðugan, aðrir spá hruni, en það sem flestir geta verið sammála um er að þetta getur haft í för með sér að fólk neyðist til að kaupa ódýrari eignir og greiðslubyrðin verður ansi mikil.

Það þarf ekki annað en einfalt reikningsdæmi til að sýna fram á þetta. Ef ég tek lán upp á milljón til 40 ára á 6,40% vöxtum — það eru þeir vextir sem Kaupþing býður viðskiptavinum sínum, þar sem ég er einmitt í viðskiptum — og segjum að verðbólguspáin sé 4% sem er ekki ólíklegt miðað við ástandið núna mundi milljónin á 40 árum kosta mig 6,8 millj. Ef ég væri heppin og fengi 0% verðbólgu í þessi 40 ár slyppi ég með að borga bankanum 2,9 millj. fyrir milljónina. Þetta er verðið á peningum og þetta er einangrað dæmi. Þetta er óháð launaþróun og öðru slíku.

Þetta segir okkur hins vegar að auðvitað hafa vextirnir áhrif á kjör almennings í landinu. Við getum ekki horft fram hjá því. Hver milljón sem er tekin að láni er greidd margföld til baka og þessir háu vextir hljóta því að gera fólki erfiðara um vik við íbúðakaup, ekki síst þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Í sumar var lánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað úr 90% í 80%. Það má ekki gleyma því að þó að miðað sé við kaupverð eignar þarf lánið að vera innan við 100% af brunabótamati og lóðarmati sem er oftast langt undir markaðsvirði og lánið fer ekki yfir 18 millj. Það má því spyrja sig hvaða áhrif þessi aðgerð hefur haft á þensluna. Þau virðast vera takmörkuð, a.m.k. enn þá enda breytir þetta litlu fyrir þá sem eru að kaupa dýrar eignir, á 20 millj. og yfir. Formaður Félags fasteignasala, Ingibjörg Þórðardóttir, varaði við því að þetta mundi helst bitna á þeim sem keyptu ódýrar eignir.

Í frétt Morgunblaðsins um ástandið á fasteignamarkaði frá 8. nóvember sl. segir einmitt sá sami formaður afleiðingarnar af hærri vöxtum og erfiðari greiðslubyrði vera þær að fólk eigi erfiðara með að standast greiðslumat. Fólk sem metið var upp á 18 millj. fyrir tveimur árum, þegar ég var svo heppin að kaupa mína fyrstu eign, er metið núna á 13–14 millj. Það þarf ekki að skoða fasteignablöðin lengi til að sjá að fólk neyðist þar með að sjálfsögðu til að kaupa talsvert ódýrari eignir, fá viðbótarlán með enn hærri vöxtum eða fá veð í eignum ættingja og vina.

Hvernig er staðan fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign og hvað verður um þá sem ekki eiga ættingja sem geta stutt þá? Bitnar þessi lækkun kannski fyrst og fremst á þeim sem hafa lítið félagslegt öryggisnet og eru að kaupa sér ódýrar eignir?

Hæstv. forsætisráðherra lét hafa eftir sér í síðustu viku að fólk ætti að halda að sér höndum í fasteignaviðskiptum og ég velti fyrir mér hverjum þau skilaboð eru ætluð. Ég skil það þegar seðlabankastjóri biður fólk um að spara við sig í leikföngunum en er hægt að biðja ungt fólk að spara við sig í íbúðakaupum? Fólk þarf að koma sér þaki yfir höfuðið og fólk þekkir það sem hefur verið á leigumarkaði að hann er helst til ótryggur. Þar getur maður fengið þriggja herbergja íbúð á 120–150 þús. kr. á mánuði, svoleiðis er bara raunveruleikinn á leigumarkaðnum. Hann er lítill og óöruggur og það er rukkað upp í topp. Á fimm árum á leigumarkaði flutti ég fimm sinnum og ég er ekkert einsdæmi og ekki safnar maður sér fyrir útborgun á meðan maður leigir. Þannig er það bara.

Ég spyr því: Hvað ætlar ríkisstjórnin sér að gera? Það þarf að ríkja hér sátt um Íbúðalánasjóð. Á að endurskoða lánshlutfallið? Hvaða úrbætur eru á döfinni hvað varðar félagsleg íbúðalán sem engin hafa verið síðan Byggingarsjóður verkamanna var lagður niður? Er þetta ekki eitt brýnasta verkefnið fyrir (Forseti hringir.) okkur sem hér erum, að tryggja að fólk hafi möguleika á að koma sér þaki yfir höfuðið?