135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:10]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Virðulegi forseti. Mikil viðskipti og ör þróun hefur átt sér stað á íbúðamarkaðnum á undanförnum árum. Mesta breytingin ef við horfum fá ár aftur í tímann er innkoma bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Ástæðan fyrir þeirri innkomu er einföld, Íbúðalánasjóður og ríkisstjórnin fyrrverandi gáfu það út að á síðasta kjörtímabili yrði lánshlutfall hækkað í 90% eftir því sem efnahagsástandið leyfði.

Þegar í ljós kom að ESA gerði ekki athugasemdir við þau áform brugðust bankarnir mjög kröftuglega við eins og allir muna og komu fram með 80% lán án hámarks á meðan Íbúðalánasjóður bauð enn þá 70% lán með 9,2–9,7 millj. kr. hámarki. Í kjölfarið hófst síðan gegndarlaust kapphlaup bankanna og hver kepptist við að bjóða betur en hinn sem endaði með 100% fjármögnun til íbúðakaupa án nokkurs hámarks.

Svo kenna bankarnir stjórnvöldum og ríkisstjórninni sem þá sat um allt saman.

Í ljósi þess að bankarnir voru duglegir við að lýsa því yfir að þeir hefðu áhyggjur af efnahagsþróuninni var þeim í lófa lagið að miða sín lán við hámark sem var lítið eitt hærra en hámark Íbúðalánasjóðs og bjóða þá hærri kjör á hærri upphæðum. Þannig hefðu þeir veitt Íbúðalánasjóði fulla samkeppni og sýnt ábyrgð gagnvart efnahagsmálum í verki í stað þess að valda eignabólu og kenna svo öðrum um þensluna. Því varð niðurstaðan sem varð.

Þegar maður horfir til þess ástands sem er á lánamarkaði vitum við að þeir vextir sem nú eru í boði eru mjög háir. Þeir eru komnir til vegna þess að erlendir bankar, m.a. bandarískir, útbjuggu sérstök lánasöfn til að bjóða þeim sem áttu í erfiðleikum með að borga lánin sín.

Ég undirstrika það, frú forseti, að búin voru til sérstök lán til þeirra sem áttu erfitt með að borga lánin sín, fólks sem hafði enga skuldasögu, undirmálslán svokölluð. Þegar í ljós kemur að þetta fólk getur ekki borgað lánin sín lenda erlendu bankarnir að sjálfsögðu í kröggum sem skilar sér svo hingað til okkar því að við erum ekki eyland þegar kemur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum (Forseti hringir.) þó að Ísland sé eyja. Þess vegna hafa slæm vaxtakjör erlendis áhrif hér en vextir sveiflast til og frá (Forseti hringir.) og vonandi förum við að sjá lægri vexti núna í framtíðinni.