135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:15]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Að koma sér þaki yfir höfuðið er ein af grunnþörfum okkar, einn af hornsteinum þess að geta lifað góðu lífi, ég tala ekki um í neyslusjúku samfélagi eins og okkar, samfélagi þar sem milljarðarnir flæða og hallirnar rísa hver á fætur annarri á suðvesturhorninu. En hvernig hefur okkur í raun tekist að sjá til þess að þeirri grunnþörf sé fullnægt hjá okkur öllum, ekki bara sumum? Hvað hefur gerst í milljarðasamfélaginu að þessu leyti? Það sem hefur gerst er að þeir sem síst skyldu hafa orðið eftir. Þeir sem hafa allra minnst milli handanna, þeir sem þurfa allra helst á öruggu skjóli að halda sitja eftir. Það eru tekjulitlir leigjendur og ungt fólk sem þarf á húsnæði að halda og ætlar að byggja sér heimili.

Frá janúar 2004 til október 2007 hefur hlutur húsnæðis í vísitölu neysluverðs hækkað um tæplega 38%, úr rúmlega 21% í rúmlega 29%. Þetta er talið mun hærra einmitt fyrir þá einstaklinga sem verst eru settir þannig að mitt í allri velsældinni er nú nær óviðráðanlegt fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið. Ýmislegt þarf að gera nú þegar, m.a. vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, að krefjast þess að til komi verulegar úrbætur til handa félagslegum aðilum til að reisa leiguhúsnæði fyrir skjólstæðinga sína. Þar nægir ekki að bjóða upp á verðtryggð lán með 3,5% vöxtum eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Í því efni er skemmst að minnast þess að fyrir ekki svo löngu voru 1% vextir á þessum lánum ofan á verðtryggingu. Hlúa þarf sérstaklega að leigumarkaðnum með betri stuðningi og í samvinnu við sveitarfélögin því að húsaleigubætur hafa í raun skerst, þær hafa ekki bara staðið í stað, (Forseti hringir.) og sérstök úrræði og stuðning þarf fyrir það fólk sem er að kaupa eða byggja í fyrsta sinn. Síðast en ekki síst þarf að standa vörð um Íbúðalánasjóð. Ég hlakka til að heyra betur frá hæstv. ráðherra hvað ríkisstjórnin ætlar sér nákvæmlega í þeim efnum.