135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Lækkun vaxta fyrir þremur árum leiddi til mikillar hækkunar á fasteignaverði. Flestir, sem áttu íbúð á þeim tíma og hafa keypt síðan, hafa hagnast mikið á þeirri hækkun, jafnvel svo að þeir hafa haft meiri tekjur af hækkun eigna sinna en í laun. Það eru sennilega 60–70% landsmanna. Það má ekki gleyma því. Í kjölfarið hefur verið byggt óhemjumikið af fasteignum, íbúðum sérstaklega, þannig að því er ekki fyrir að fara að skortur sé á íbúðum. En hækkun vaxta á síðustu mánuðum, í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabankans, kann að slá á þessa hækkun og jafnvel valda ákveðinni lækkun og þá gætu þeir misst allt eigið fé sem keyptu fyrstu íbúð sína á síðustu mánuðum fyrir lækkunina. Það er ákveðin hætta sem við horfum fram á, og það á aðallega við um unga fólkið, og þá munu menn upplifa stöðu eins og landsbyggðin hefur búið við í fjölda ára, að menn eru komnir með neikvætt eigið fé.

Leigjendur hafa ekki fengið hlut í þeirri hækkun sem ég ræddi um en þeir hafa þurft að taka á sig stórhækkaða leigu í kjölfarið. Þar er komið upp alvarlegt félagslegt vandamál sem finna þarf lausn á. Mér finnst að við þingmenn ættum að skoða hugmyndir um húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta, sem hvorugt er nógu hentugt form til að aðstoða tekjulágar fjölskyldur, og skoða t.d. þingsályktunartillögu sem ég flutti á 122. þingi um að taka upp húsnæðisbætur í staðinn fyrir vaxta- og húsaleigubætur. Það er eitthvað sem mundi nýtast ungu fólki og þeim sem eru eignalitlir miklu betur en þær ráðstafanir sem menn hafa í dag.