135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:26]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við þekkjum tímann þegar hér ríkti óðaverðbólga og sagt var að líklega hefði verið ódýrara að menn byggðu sér hús úr álkrónum en hús úr steypu og þá var talað um að ríkti neyðarástand á íslenskum húsnæðismarkaði. Ég þakka fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram í dag og þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þau svör sem hún gaf en hún dró upp ansi svarta mynd og talaði um neyðarástand, að endurreisa þyrfti húsnæðismarkaðinn og að ríkið þyrfti að viðurkenna að húsnæðismálin væru velferðarmál. Ég held að það sé grundvallarumræða. Ég held að það sé rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra að fólk getur ekki beðið og það eru sláandi tölur sem hér eru nefndar að 7.000 manns hafi reynt að kaupa íbúð en horfið frá því. Það eru sláandi tölur.

Nú hefur ríkisstjórnin setið í sex mánuði og þess vegna finnst mér rétt að kalla eftir aðgerðum og úrbótum því fólk getur hreinlega ekki beðið. Það er einmitt lykilatriði að þetta eru velferðarmál, hvort sem er á eignamarkaði eða leigumarkaði. Við vitum að húsaleigubætur, svo dæmi sé tekið, hafa staðið í stað frá 2003 og eru að mig minnir 12 þús. kr. án skerðingar á einstakling á mánuði og við þekkjum jafnframt tölurnar sem fólk greiðir í leigu. Augljóslega fylgir þetta ekki vísitöluþróun.

Ég treysti því að ríkisstjórnin bregðist skjótt við og tillögur þessarar nefndar komi fljótt. Mér finnst að hér þurfi að svara spurningum um hvort endurskoða eigi lánshlutfall Íbúðalánasjóðs, hvaða úrbætur eigi að gera á leigumarkaði og hvort gera eigi lífeyrissjóðum kleift, svo dæmi sé tekið, að eiga og leigja húsnæði. Ég treysti því að unnið verði hratt að þessum málum því að húsnæðismálin eru velferðarmál. Þetta er grunnþörf og það er samfélagslegt verkefni að tryggja öllum þak yfir höfuðið og þar höfum við hlutverki að gegna.