135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2007 en ásamt mér skrifa undir það nefndarálit, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir ásamt hv. þm. Bjarna Harðarsyni, með fyrirvara. Hv. þm. Illugi Gunnarsson og Guðbjartur Hannesson voru fjarstaddir þegar gengið var frá nefndarálitinu.

Í fjáraukalagafrumvarpinu sem lagt var fram í byrjun október var gert ráð fyrir því að rekstrargrunnur og tekjujöfnuður í A-hluta rekstraryfirlits ríkissjóðs breytist þannig að tekjur mundu aukast um 71 milljarð og útgjöld um 15,8 milljarða eða tekjujöfnuður yrði 56 milljarðar. Í umræddu lagafrumvarpi er einnig gert ráð fyrir því að sjóðshreyfingar verði á tekjuhlið 60,7 milljarðar og 9,6 í útgjaldahlið, eins og segir í 2. gr. Þá er einnig gert ráð fyrir ákveðnum sjóðsstreymisbreytingum, auk þess sem hér var lagt upp með breytingar á 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2007 með hliðsjón af lántökum, endurlánum og ríkisábyrgðum. Í umræddu frumvarpi er einnig lagt til í 4. gr. þess að ákveðnar breytingar verði gerðar á 6. gr. fjárlaga sem m.a. fjalla um sölu á eignum, og/eða kaup á eignum eins og er sundurliðað í 4. gr. umrædds frumvarps.

Hef ég þá lokið við að fjalla um frumvarpið eins og það var sent til nefndarinnar og sný mér nú að umræddu nefndaráliti. En vissulega er það svo, frú forseti, að með hliðsjón af lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, þá er þar tiltekið í 43. gr., 44. gr. og 45. gr. hvernig almennt er fjallað um frumvarp til fjáraukalaga. En í þeim umræddu greinum er einnig fjallað um það hvernig frumvarp til lokafjárlaga sé meðhöndlað til staðfestingar á ríkisreikningi.

Ákvæðin eru því skýr í umræddum lögum og hefur fjárlaganefndin tekið fjárreiðulögin til hliðsjónar við sitt nefndarálit jafnt sem horft hefur verið til þess í þeim breytingartillögum sem fjárlaganefndin gerir.

Nefndarálitið liggur fyrir á þskj. 264 en umræddar breytingartillögur eru á þskj. 265 þar sem tiltekin er gjaldahliðin, á þskj. 266 þar sem tilteknar eru breytingar á tekjum A-hluta ríkissjóðs og síðan á þskj. 267 þar sem er gert ráð fyrir viðbótum er varða 6. gr. heimildir. Vil ég gera grein fyrir þeim strax þar sem þær eru einungis tvær og hljóða svo, með leyfi forseta:

Við 4. gr. lagafrumvarpsins bætast tveir nýir liðir:

6.28 Að leigja hentugt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands.

7.19 Að ganga til endanlegra samninga við Landsvirkjun um vatnsréttindi ríkisins við Kárahnjúka á grundvelli úrskurðar matsnefndar um ákvörðun bóta vegna réttindanna.

Um tekju- og gjaldahliðina segir að nefndin hafi haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Enn fremur var óskað eftir áliti frá Ríkisendurskoðun.

Umræddur meiri hluti nefndarinnar, sem ég gerði grein fyrir áðan, gerir 54 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 4.931 milljörðum kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í umræddri framsögu minni. Þá gerir meiri hlutinn breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, líkt eins og ég kom að hér áðan, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 8.202 milljarða frá áætlun í frumvarpinu. Jafnframt gerir meiri hlutinn þær breytingartillögur við umræddar 6. gr. heimildir sem ég hef þegar gert þingheimi grein fyrir.

Það er álit nefndarinnar, og mjög mikilvægt að þingheimur geri sér grein fyrir því, að á milli 2. og 3. umr. þurfi að skoða sérstaklega framhaldsskóla almennt, rekstrarkostnað sýslumannsembætta, heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili og gera tillögu um skiptingu fjárheimildar á einstakar stofnanir. Enn fremur mun nefndin skoða á milli umræðna málefni er varða eignir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.

Þá vil ég víkja að einstökum breytingartillögum en fara nokkuð hratt yfir sögu. Ég bið hv. þingmenn að fylgjast með í texta álitsins en til þess að stytta umræðuna mun ég ekki víkja að hverjum lið fyrir sig sérstaklega.

Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 65 millj. kr. og um er að ræða lið sem tengist ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum og einnig fasteignum Stjórnarráðsins upp á 40 millj. Hvað varðar fjárheimildir menntamálaráðuneytis þá er lagt til að þær verði auknar um 362 millj. Það er lagt til í fyrsta lagi að 5 millj. kr. fjárheimild verði millifærð af Háskóla Íslands yfir á Fræðslumiðstöð Vestfjarða til leiðréttingar en síðan er einnig lagt til 25 millj. kr. framlag vegna brýnna viðhaldsverkefna á húsi Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. 62 millj. eru viðbótarfjárveiting til að ljúka framkvæmdum við byggingu svonefndrar P3 aðstöðu að Keldum. Síðan eru lagðar til fjárheimildartillögur vegna framhaldsskóla, almennt, og með tilvísun til þess sem ég sagði fyrr í ræðu minni þá er gerð tillaga um 60 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til að mæta auknum kostnaði við veikindaorlof framhaldsskólakennara og skiptist fjárhæðin þannig að 35 millj. kr. er vegna halla frá fyrri árum og 25 millj. kr. vegna áætlaðra útgjalda umfram fjárheimildir á árinu 2007. Síðan er einnig lögð til fjárveiting upp á 150 millj. kr. til viðbótar á liðinn Framhaldsskólar, óskipt, og nemi þannig umrædd fjárveiting til þessa liðar 317 millj. kr. með tilvísun til frumvarpsins eins og það liggur fyrir.

Undir liðnum Símenntun og fjarkennsla er lagt til að sé millifærð umrædd 5 millj. kr. fjárheimild frá Háskóla Íslands yfir á Fræðslumiðstöð Vestfjarða til leiðréttingar. Það er gerð tillaga um 2 millj. kr. framlag til Háskólaseturs Snæfellinga til leiðréttingar á mistökum á fjárlagagerð fyrir árið 2007 og einnig er lagt til að veitt verði 100 millj. kr. viðbótarframlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga. En styrkir til íslenskukennslu útlendinga á fyrri hluta árs voru auglýstir í janúar 2007 með umsóknarfresti til 2. febrúar og um 70 fræðsluaðilar og fyrirtæki sóttu um ríflega 140 millj. kr. framlag til íslenskukennslunnar. Fjöldi umsókna fór fram úr væntingum og ljóst er að ekki er unnt að mæta óskum umsækjenda nema grípa til viðbótarframlagsins eins og lagt er til.

Gerð er tillaga um 7,8 millj. kr. framlag vegna uppgjörs Listdansskólans og 2,5 millj. kr. aukafjárveitingu til Kvikmyndaskoðunar vegna kostnaðar á árinu 2007 en stofnunin var lögð niður um mitt ár 2006. Lagt er til að fjárheimild verði lækkuð um 440 millj. kr. hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna í ljósi endurskoðaðrar áætlunar. Helstu skýringar lækkunarinnar eru að gengi krónunnar hefur haldist hærra á árinu en spáð var auk þess sem atvinnutekjur lánþega hafa hækkað meira á milli ára en gert var ráð fyrir.

Gerð er tillaga um 8 millj. kr. aukafjárveitingu til Fornleifaverndar ríkisins vegna aukinna verkefna. Gerð er tillaga um 75 millj. kr. framlag vegna eftirlits með hönnun og framkvæmdum í tengslum við byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar. Gerð er tillaga um að fjárheimild Ríkisútvarpsins vegna afnotagjalda verði hækkuð um 142 millj. kr. en í frumvarpinu er gert ráð fyrir jafnmikilli lækkun á fjárheimildinni þar sem talið var að innifalið í henni væri virðisaukaskattur sem lækkaði síðastliðið vor. Gerð er tillaga um 15 millj. kr. framlag til reksturs Sinfóníuhljómsveitar Íslands, annars vegar til að mæta kostnaði við tvö ný stöðugildi og hins vegar vegna hækkunar húsaleigu.

Gerð er tillaga um 4 millj. kr. framlag til að styrkja verkefnið Pompei norðursins en kostnaður við það varð meiri á árinu en áætlað hafði verið. Þá er gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag til Ungmennafélags Íslands í tilefni af 100 ára afmæli samtakanna á þessu ári og til að styrkja Landsmót UMFÍ sem haldið var í Kópavogi í júlí síðastliðnum. Að lokum er undir menntamálaráðuneyti gerð tillaga um 15 millj. kr. framlag til Sveitarfélagsins Hornafjarðar til stuðnings við uppbyggingu íþróttavallar í tengslum við unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Höfn síðasta sumar en Alþingi hefur á umliðnum árum komið að umræddum stofnframkvæmdum kringum unglingalandsmót UMFÍ.

Hjá utanríkisráðuneyti er lagt til að fjárheimild verði aukin um 4,3 millj. kr. til aðalskrifstofu.

Varðandi landbúnaðarráðuneyti er lagt til að fjárheimild verði aukin um 113,4 millj. kr. Þar er helst að nefna að gerð er tillaga um 70 millj. kr. framlag til Hólaskóla – Háskólans á Hólum vegna aukins rekstrarkostnaðar og uppsafnaðs halla síðustu ára. Lagt er til að millifærð verði 10 millj. kr. fjárveiting til Landgræðslunnar af lið Fasteigna ríkissjóðs. Gerð er tillaga um 5 millj. kr. framlag til Skógræktar ríkisins vegna Vagla í Fnjóskadal. Einnig er gerð er tillaga um 9 millj. kr. aukafjárveitingu til Vesturlandsskóga til að greiða niður halla undanfarinna ára. Lögð er til 19,4 millj. kr. hækkun á framlagi til Bændasamtaka Íslands.

Í sjávarútvegsráðuneyti er lagt til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 14,7 millj. kr. vegna flutnings hluta af starfsemi Matís af Skúlagötu 4 í Borgartún 21.

Til dóms- og kirkjumálaráðuneytis er lagt til að fjárheimild verði aukin um 590,9 millj. kr. Um er að ræða tölvumiðstöð dóms- og kirkjumálaráðuneytis og ýmis verkefni. Íslenskri ættleiðingu verði veitt 3 millj. kr. framlag. Jafnframt er aukinn kostnaður vegna dómsmála. Nú liggur fyrir mat á útgjöldum vegna sérstaks saksóknara sem fyrst féllu til í fyrra. Gjöldin eru nú áætluð 37 millj. kr. Gerð er tillaga um 59,9 millj. kr. fjárveitingu til Landhelgisgæslu Íslands vegna þyrluleigu sem reyndist óhjákvæmileg í kjölfar þess að þyrla gæslunnar, TF-SIF, nauðlenti í sjónum út af Straumsvík og eyðilagðist en á sama hátt koma til tryggingabætur. Gerð er tillaga um 360 millj. kr. hækkun á fjárheimild vegna halla á lið fyrir viðhald og endurbætur á farkostum Landhelgisgæslunnar. Að lokum er lagt til að hjá dómsmálaráðuneyti hækki ýmis sameiginlegur kostnaður um 150 millj. kr. Sundurliðun fjárveitingarinnar á einstök sýslumannsembætti verður sýnd í breytingartillögu meiri hlutans við 3. umr. um frumvarpið.

Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 710,5 millj. m.a. í málefni fatlaðra í Reykjavík og lögð er til 50 millj. kr. fjárveiting vegna halla á starfsemi svæðisskrifstofunnar. Í málefni fatlaðra á Reykjanesi er einnig lögð til 50 millj. kr. fjárveiting vegna halla á starfsemi svæðisskrifstofunnar. Lögð er til 150 millj. kr. aukafjárveiting til Framkvæmdasjóðs fatlaðra þar sem fjárheimild sjóðsins dugir ekki fyrir fyrirliggjandi verkefnum. Lagt er til að veitt verði 440 millj. kr. fjárveiting til Fæðingarorlofssjóðs og þá er tillaga um 4 millj. kr. framlag til Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla

Stóru liðirnir tengjast heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 2.986,3 millj. kr. Þar eru stærstu liðirnir 206 millj. kr. fjárveiting til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna halla. Gerð er tillaga um 1.800 millj. kr. fjárveitingu til greiðslu áætlaðs uppsafnaðs rekstrarhalla Landspítala. Síðan er lögð til 250 millj. kr. fjárveiting í almennan rekstur heilbrigðisstofnana sem skipt verði milli þeirra í breytingartillögu meiri hlutans við 3. umr. um frumvarpið. Heilbrigðisstofnunin Akranesi, lagt er til að veitt verði 116 millj. kr. til hennar. Heilbrigðisstofnun Suðurlands verði veittar 208 millj. kr. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verði veittar 84 millj. kr. og 306 millj. kr. verði veittar St. Jósefsspítala. En um er að ræða halla á rekstri þessara stofnana.

Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 15,5 millj. kr. Um er að ræða aðalskrifstofu, fasteignir ríkissjóðs og þjóðlendumál en ég mun ekki sundurliða það frekar hér.

Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 19 millj. kr. Þar er millifærsla varðandi Grímseyjarferju milli rekstrarliðar og framkvæmdarliðar upp á 487 millj., til Siglingastofnunar Íslands verði veittar 16,6 millj. kr. og aukið framlag til rannsóknarnefndar flugslysa.

Hjá iðnaðarráðuneyti er gerð tillaga um 5 millj. kr. framlag til Fjórðungssambands Vestfirðinga til rannsókna við staðarvalsathuganir. Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði aukin um 30 millj. kr. Þar af eru 23 millj. kr. vegna breytinga á húsnæði og kostnaðar við innréttingar og 7 millj. kr. vegna kostnaðar við innleiðingu, þýðingu og útgáfu nýrrar atvinnugreinaflokkunar.

Að lokum er lagt til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 14 millj. kr. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. fjárveitingu vegna aðalskrifstofu umhverfisráðuneytis. Það er vegna undirbúningsvinnu við að sameina vatnamælingasvið Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands í eina stofnun í kjölfar skipulagsbreytinga í Stjórnarráðinu. Síðan fara 8 millj. kr. til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála til að mæta uppsöfnuðum vanda í úrskurðarmálum en málum hefur fjölgað mjög mikið á þessu ári.

Ég hef, frú forseti, gert grein fyrir tillögum meiri hluta fjárlaganefndar vegna gjaldahliðarinnar. Ég hefði hugsanlega átt að taka tekjuhlutann fyrir fyrr. Ég gerði þó grein fyrir honum í inngangi. En gert er ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist um 8,2 milljarða kr. frá upphaflegri áætlun eins og hún var í frumvarpi til fjáraukalaga. Það skýrist af því að skattar á tekjur og hagnað munu breytast. Tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla og skattar á fjármagnstekjur einstaklinga aukast. Ég held, frú forseti, að ég fari kannski ekki í að sundurliða það sérstaklega. Tekjurnar eru algerlega sundurliðaðar í þskj. 266. Ég sé ekki ástæðu til að að tefja umræðuna með því að fara í hvern einstakan lið en um er að ræða breytingar upp á 8,2 milljarða kr. í umræddri áætlun við 1. umr.

Minni hluti fjárlaganefndar, sem í eru hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sendi frá sér minnihlutaálit og munu þeir háttvirtu þingmenn væntanlega gera grein fyrir því á eftir.

Frú forseti. Ég hef farið yfir nefndarálitið og umræddar breytingartillögur. Ég hef vísað til breytingartillögu bæði er varðar tekjuhluta og gjaldahlið. Ég hef vísað til breytingartillögu okkar um tvo liði er varða 6. gr. heimildir og auk þess fjallað sérstaklega um hvern og einn lið ásamt því sem ég hef vísað til 43., 44. og 45. gr. í lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997. Að lokum vil ég vitna í nefndarálitið, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.“

Bjarni Harðarson skrifar undir álit þetta með fyrirvara en auk mín skrifa undir álitið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir.