135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:57]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2007 við 2. umr. málsins.

Í lögum um fjárreiður ríkisins er lögð áhersla á að ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði án heimildar Alþingis. Á því er þó ein undantekning eins og segir í 33. gr. fjárreiðulaganna, með leyfi forseta:

„Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“

Þetta ákvæði er mjög skýrt og ætti ekki að þurfa að velkjast í vafa um framkvæmd þess. Um fjáraukalögin stendur hins vegar í V. kafla, í 43. gr. fjárreiðulaganna, með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Þarna er áfram ítrekað að aðeins eigi að grípa til fjáraukalaga ef brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna náttúruhamfara eða óvæntra atvika sem grípa þarf inn í. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við skoðun nú frumvarp til fjáraukalaga en þar eru einmitt fjölmargir liðir sem alls ekki falla undir þessar greinar fjárreiðulaganna og ættu betur heima í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2008 sem nú liggur fyrir Alþingi, ellegar þá að taka hefði átt tillit til þeirra við gerð fjárlaga ársins 2007 fyrir um ári síðan.

Þar má nefna dæmi um ný viðfangsefni stofnana og ráðuneyta sem ættu með réttu lagi að koma inn á fjárlög. Í öðrum tilfellum er verið að bæta uppsafnaðan rekstrarvanda hjá stofnunum ríkisins og í raun ætti að rétta rekstrargrunninn af í fjárlögum næsta árs ef rétt væri á málum haldið. En því miður er það líka afar tilviljanakennt hvaða stofnanir fá leiðréttingu á halla sínum á fjáraukalögum á hverjum tíma og svo virðist einnig vera hér. Að mati okkar nefndarmanna í minni hlutanum er afar brýnt að þessu vinnulagi verði breytt og tekið sé heildstætt á málum.

Þá birtist einnig í fjáraukalögunum fyrir árið 2007, sem við nú fjöllum um, rækilega sú lausung sem fyrri ríkisstjórnir hafa tamið sér í umgengni við lög um fjárreiður ríkisins og fjármálaráðherra virðist ætla að halda sig við fyrri siði í nýrri ríkisstjórn. Lögð eru til útgjöld sem ekki eiga heima í fjáraukalögum.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur nú til við 2. umr. um fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2007 að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 4,9 milljarða kr. Á móti vegur að nú er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 8,2 milljarða kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Nú er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á árinu 2007 nemi 388 milljörðum kr., sem er 20,8 milljarða kr. aukning frá fjárlögum, og að tekjur verði 456,5 milljarðar kr. sem er 21,3% aukning frá fjárlögum. Tekjuafgangur ríkissjóðs er nú áætlaður 68,5 milljarðar kr. en í fjárlögum var gert ráð fyrir að hann næmi 9,2 milljörðum kr. Þessar tölur og þessi mikli mismunur endurspeglar ekki aðeins gríðarlega aukningu umsvifa í þjóðfélaginu heldur miklu frekar vanáætlanir á flestum liðum fjárlaga við gerð fjárlagafrumvarps og afgreiðslu fjárlaga frá Alþingi.

Við sjáum við afgreiðslu fjárlaga núna að ný ríkisstjórn tekur kosningaloforð þeirrar síðustu í arf og að fjáraukalög eiga að bæta upp vanrækslusyndir fyrri ríkisstjórnar. Bæði gjöld og tekjur fara langt fram úr því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Þannig er gert ráð fyrir tæplega 72 milljörðum kr. í auknar tekjur í frumvarpinu miðað við fjárlagafrumvarpið 2007. Ástæðan eru auknar skatttekjur en ef við lítum á þær tölur sem liggja til grundvallar fjárlögum síðasta árs þá verður að segjast að flestar forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar hafa ekki staðist.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum bæði í haust og á undanförnum missirum gagnrýnt harðlega vinnubrögðin við fjármálastjórn ríkisins. Tökum sem dæmi að fjárlagahallinn fyrir árið 2006 var áætlaður 12,2% af vergri þjóðarframleiðslu en reyndist síðan um 25%. Halli þjóðarbúsins á undanförnum árum er orðinn slíkur að Ísland er nú orðið eitt af skuldugri löndum í heiminum. Í þessu ástandi er haldið áfram eins og á tímabili síðustu ríkisstjórnar, með stórfelldar skattalækkanir, áframhaldandi er gríðarleg stóriðjustefnu og þensla í byggingum nýrra stóriðjuverkefna. Samfara þessu hafa vextir verið keyrðir upp vegna þenslunnar þannig að nú búum við við eitt hæsta vaxtastig í heimi. Það var einmitt rækilega rakið í umræðu utan dagskrár áðan, þar sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var málshefjandi, hvaða áhrif þetta hefur á Íbúðalánasjóð og húsnæðismálin, sérstaklega fyrir fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð.

Það þarf því ekki að koma á óvart að í dag kom frétt frá Seðlabanka Íslands þar sem tilkynnt er að breytt hafi verið horfum á lánshæfismati ríkissjóðs í neikvæðar úr stöðugum. Varað hefur verið við því á undanförnum árum og missirum að ójafnvægið í íslenska efnahagskerfinu væri það mikið að þetta væri yfirvofandi. Þær fréttir sem komu núna, um breytingu á horfum á lánshæfismati, eru ekki nein stórtímamót í sjálfu sér en þær eru mjög alvarleg skilaboð til íslenskrar efnahagsstjórnar, til stjórnar efnahagsmála hér á landi, um að grípa til aðgerða.

Aðgerðir sem grípa þarf til eru fyrst og fremst þær að stöðva verður nú þegar frekari þenslu, stóriðjuuppbyggingu, og gefa yfirlýsingu um að svo verði gert. Tryggja verður jöfnuð í samfélaginu, koma verður til móts við þá hópa sem eru hvað tekjulægstir nú, koma verður til móts við sveitarfélög á svæðum þar sem þau berjast í bökkum með litla tekjustofna. Við verðum að koma á jafnvægi í samfélaginu. Það eru hin ströngu og ákveðnu skilaboð sem bárust í þeirri tilkynningu sem Seðlabankinn var að gefa frá sér. Ég vildi ítreka þetta hér því þetta eru þau atriði sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt megináherslu á.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007 er eins og áður hefur verið greint frá gert ráð fyrir tæplega 1,5 milljarða fjárheimild til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og þar vekur athygli að fjárframlag til Landspítala er lækkað um 63,4 millj. Í tillögum meiri hlutans fyrir 2. umr. er hins vegar gert ráð fyrir 1,8 milljarða kr. hækkun til Landspítalans og veitir víst ekki af. Ætla má að um helmingur af þessum 1,8 milljörðum kr. fari í að greiða dráttarvexti og annan vanskilakostnað. Þá kemur ekki fram að sambærileg fjárhæð komi inn í fjárlög árið 2008 þannig að ekki virðist eiga að breyta rekstrarforsendum spítalans, a.m.k. liggur það ekki fyrir.

Það eru athyglisverðar skýringar sem gefnar eru á umframkeyrslu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Landspítalans og heilbrigðisstofnana á Akranesi, Suðurlandi, Suðurnesjum og Sólvangi. „Halli yfirstandandi árs er fyrst og fremst rakinn til aukins launakostnaðar sem stafar m.a. af mikilli manneklu“, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans. Hér kemur berlega í ljós hvernig láglaunastefnan kemur mönnum í koll og smánarkjör heilbrigðisstarfsmanna verða til þessi að starfsemin verður dýrari. Verður að kaupa að meiri yfirvinnu, dýrari þjónustu.

Þó að þessar stofnanir hafi fengið uppsafnaðan rekstrarvanda að einhverju leyti bættan eiga mörg sjúkrahús, hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir við verulegan rekstrarvanda að etja og glíma við uppsafnaðan vanda vegna þess að þær hafa ekki fengið nægilegt fjármagn á fjárlögum. Í frumvarpi til fjáraukalaga er ekki tekið á þessum vanda.

Meiri hlutinn tekur í tillögum sínum við 2. umr. á uppsöfnuðum halla nokkurra heilbrigðisstofnana, m.a. Landspítalans og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Við leggjum áherslu á að taka verði til skoðunar milli 2. og 3. umr. fjárhag heilbrigðisstofnana almennt. Ég nefni heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið sem búa við bæði mikinn uppsafnaðan halla frá fyrri árum og ónógan rekstrargrunn þannig að þær eiga erfitt með að standa við skuldbindingar sínar og verkefni, og aðrar stofnanir líka, eins og elli- og hjúkrunarheimilin, en þung áhersla var lögð á það í umræðum fyrir kosningar á síðastliðnu vori að einmitt þennan málaflokk ætti að styrkja og efla. Margar þessar stofnanir búa við mikinn halla, uppsafnaðan halla sem ekki hefur verið tekið á í fjáraukalagafrumvarpinu.

Það hefur þó verið gefin yfirlýsing um að málaflokkar þessir, bæði heilbrigðisstofnanir og elli- og hjúkrunarheimili, svo og framhaldsskólar og fleiri samfélagslegir málaflokkar verði teknir upp milli 2. og 3. umr. og fjárhagsstaða þeirra skoðuð heildstætt.

Eitt er það líka í þessu frumvarpi sem erfitt er að átta sig á en það er það hvernig hinar svokölluðu mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskkvóta skila sér inn á hina einstöku fjárlagaliði á þessu ári eins og lofað var. Þá eru einnig lagðar til fjárveitingar á fjáraukalögum vegna fyrirhugaðra breytinga á skipan Stjórnarráðsins og verkefnaflutningi milli ráðuneyta, sem reyndar eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári ef Alþingi samþykkir áformin um breytingarnar.

Það má raunar segja um flest þau verkefni sem óskað er eftir fjármagni í. Útgjöldin eru fyrirséð áður en fjárlagafrumvarp ársins er lagt fram og ættu þess vegna heima í fjárlögum. Hækkun ýmissa kostnaðarliða er yfirleitt fyrirséð og undrast minni hluti þessi vinnubrögð og þessar skipulegu og síendurteknu vanáætlanir. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á vanáætlunum varðandi sameiningu stofnana og hlutafélagavæðingu á undanförnum árum, t.d. Landbúnaðarstofnunar og Matíss. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiða, að mig minnir, 150 millj. kr. til Matíss sem gert var að hlutafélagi um síðustu áramót. Í umsögn fjármálaráðuneytisins um þessar breytingar var gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóð vegna þeirra yrði óverulegur. Sama er að segja um Landbúnaðarstofnun. Og mér kæmi ekki á óvart þó að hér kæmi inn á borð ósk um veruleg fjárframlög til hins nýja hlutafélags Flugstoða sem stofnað var um síðustu áramót og átti að fara með flugvelli landsins og flugleiðsöguþjónustu. Þessi hlutafélagavæðing á opinberri þjónustu, þjónustu ríkisins, hefur að mínu viti algjörlega mistekist og snúist í öndverðu sína, leitt til kostnaðar, leitt til meiri fjarlægðar frá opinberu eftirliti og einnig fjarlægðar frá þjónustuskyldunum sem þeim er ætlað að sinna.

Í þessu sambandi er einnig vert að vekja athygli á þeim áformum sem nú eru fyrirhuguð um verulega uppstokkun á Stjórnarráðinu, tilfærslu á heilum málaflokkum á milli ráðuneyta, sem kemur til framkvæmda frá og með næstu áramótum ef Alþingi samþykkir þau. Í umsögn fjármálaráðuneytisins um það frumvarp er líka gert ráð fyrir að kostnaður vegna þeirra flutninga verði óverulegur. Hver trúir því? Hver trúir því að það verði óverulegur kostnaður við að flytja heilu málaflokkana frá landbúnaðarráðuneytinu eins og ráðgert er, sundra Landgræðslu ríkisins, kljúfa hana upp og flytja hluta af henni undir annað ráðuneyti, kljúfa Skógræktina upp og flytja hluta af henni til annars ráðuneytis, flytja búnaðarskólana o.s.frv.? Mér kæmi ekki á óvart að við umræðu um fjáraukalög að ári munum við standa frammi fyrir mörgum slíkum póstum.

Ýmislegt fleira í þessu frumvarpi væri ástæða til að gera athugasemdir við. Þær athugasemdir bíða þó 3. umræðu þegar allar breytingartillögur ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar liggja fyrir og heildarmynd er komin á frumvarpið. Minni hluti vill leggja sérstaka áherslu á vandaðan undirbúning fjárlaga þannig að fjáraukalög verði einungis þegar „grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana“ eins og segir í 44. gr. fjárreiðulaganna. Viðvarandi hallarekstur ríkisstofnana vegna þess að þær fá of lítið fjármagn á fjárlögum gengur ekki til frambúðar. Það er í hæsta máta óeðlilegt að nota fjáraukalög til að rétta af hallarekstur og greiða upp vanrækslusyndir undanfarinna ára. Tryggja verður eðlilegan rekstrargrunn stofnana og ábyrga áætlanagerð og fjármálastjórn. Nauðsynlegt er að nota nú tækifærið og greiða upp halla hjá stofnunum ríkisins og koma þeim á réttan fjárhagslegan grundvöll. Minni hlutinn hefur lýst sig reiðubúinn til að standa að tillögum þar um og tryggja eðlilegar fjárveitingar í fjárlögum fyrir árið 2008 svo ekki þurfi að hefja sama leikinn með fjáraukalögum næsta árs.

Frú forseti. Ég hef lesið upp og vitnað til hluta af nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, sem í er auk mín hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, en ítarlega er fjallað um einstaka og afmarkaða þætti í nefndarálitinu. Við flytjum auk þess breytingartillögur við frumvarpið sem hér hafa verið kynntar. Í fyrsta lagi er það breytingartillaga sem lýtur að rekstri Vegagerðarinnar. Eins og kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar er gert ráð fyrir því af hálfu meiri hlutans að flytja fjárveitingu af stofnkostnaðarlið eða framkvæmdalið Vegagerðarinnar yfir á rekstrarlið til þess að mæta útgjöldum vegna endursmíði á nýrri Grímseyjarferju. Þetta mál hefur lengi verið til meðferðar og var eitt heitasta málið hér í haust og er dæmigert um framkvæmd fjárlaga þegar allt fer úrskeiðis. Eins og kunnugt er var á fjárlögum ársins 2007 heimild til, eins og segir orðrétt, með leyfi forseta: „að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju.“

Sérstök útgjöld vegna nýrrar Grímseyjarferju hafa hins vegar hvergi komið inn á fjárlög umfram þessa heimildargrein. Skýrt er kveðið á um það í fjárreiðulögum að af hálfu ríkissjóðs megi ekkert gjald inna af hendi nema fyrir liggi samþykki á fjárlögum. Ríkisstjórn Íslands veitti á fundi sínum 12. apríl 2005 heimild til að kaupa írsku ferjuna Oileáin Árann sem koma átti í stað Grímseyjarferjunnar Sæfara. Áætlað kaupverð og kostnaður við endurbætur var 150 millj. kr. Hinn 25. nóvember 2005 undirrita fjármálaráðuneyti og samgönguráðuneyti yfirlýsingu þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Var ákveðið að fjármögnun nýrrar Grímseyjarferju yrði af ónotuðum heimildum Vegagerðarinnar fram til 2007 og 2008. Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.“

Þessi vinnubrögð, að veita fjárheimildir svo gjörsamlega utan samþykktar Alþingis, gagnrýnir Ríkisendurskoðun harðlega í sérstakri greinargerð frá því í ágúst sl. um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju. Þar segir að nú þegar, þ.e. í ágúst, hafi verið greiddar tæplega 400 millj. kr. úr ríkissjóði til verksins, allt án fjárlagaheimilda.

Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og „getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu“, með orðréttri tilvitnun, frú forseti. Flutningsmenn taka undir þessa gagnrýni ríkisendurskoðanda. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til, eins og ég hef áður greint frá, að millifærðar verði af framkvæmdalið Vegagerðarinnar 487 millj. kr. vegna endursmíði Grímseyjarferju inn á liðinn Styrkir til ferja og sérleyfishafa.

Með þessari millifærslu er verið að taka lán frá öðrum framkvæmdum Vegagerðarinnar, sem Alþingi hefur samþykkt, til endursmíði ferjunnar. Lán sem verður fyrr eða síðar að greiðast til baka úr ríkissjóði. Það er einmitt þetta vinnulag sem Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt harðlega.

Við flutningsmenn, eða minni hluti fjárlaganefndar, leggjum því til að þessum skollaleik með fjárreiðulögin verði hætt og veitt verði nú þegar á fjáraukalögum 487 millj. kr. sem talið er að þurfi til að greiða kostnað við kaup og endursmíði ferjunnar, beint inn á fjárlagaliðinn sem sérstök fjárveiting og þegar komi að því að núverandi Grímseyjarferja verði seld komi andvirði hennar beint inn í ríkissjóð.

Ég verð að segja, frú forseti, að þessi aðgerð meiri hlutans varðandi Grímseyjarferjuna kemur mér mjög á óvart. Ég hélt að málið hefði verið í ákveðnu ferli í fjárlaganefnd. Greinargerð Ríkisendurskoðunar, um framkvæmd endursmíði á Grímseyjarferjunni, kom jú inn á borð fjárlaganefndar til úrvinnslu og eftir atvikum afgreiðslu. Nefndin lagði gríðarlega mikla vinnu í að afla upplýsinga og gagna um það hvernig það atvikaðist að ráðist var í þessar endurbætur og greiðslur úr ríkissjóði án fjárlagaheimildar eins og Ríkisendurskoðun hafði bent á.

Fjárlaganefnd skilaði af sér skýrslu þar sem meiri hlutinn lagði áherslu á að áfram skyldi fara sérstaklega ofan í þetta mál. Þetta sneri jú í grundvallaratriðum að túlkun á heimildargreinum fjárlaga, hvort framkvæmdarvaldið gæti tekið sér þetta vald utan samþykktar Alþingis og veitt heimildir til millifærslna og yfirdráttar á einstökum stofnunum ríkisins til framkvæmda sem ekki voru á fjárlögum.

Ég skildi málið á þann veg að það væri enn til meðferðar hjá fjárlaganefnd og var skipaður sérstakur starfshópur innan nefndarinnar til að fara ofan í forsendur þessa máls, hvernig það var unnið, hvaða fordæmi það gæti gefið og hvernig bæri þá að kalla eftir breytingum á fjárreiðulögum ef á þyrfti að halda til að koma í veg fyrir að svona lagað kæmi fyrir aftur.

Í miðju því ferli kemur minnisblað frá fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda um að þeir telji sig hafa orðið ásátta um að hafa þá tilhögun sem birt er í tillögum meiri hlutans, að reyna að freista þess að gera löglegan þann gjörning sem allir aðilar voru áður búnir að fordæma og telja að væri á svig við lög.

Ég tel miklu hreinlegra fyrir Alþingi og fyrir fjárlaganefnd að taka á því að við stöndum frammi fyrir gjörðum hlut. Búið er að skuldbinda ríkissjóð um þessar tæpu 500 millj. kr. vegna Grímseyjarferjunnar og það á þá að koma beint úr ríkissjóði en ekki vera að skerða annað framkvæmdafé Vegagerðarinnar.

Þess vegna flytjum við þessa tillögu og ég skora á meiri hluta fjárlaganefndar að endurskoða afstöðu sína til þessa tillöguflutnings. Það er verið að bíta höfuðið af skömminni ef samþykkt verður að verða við þeim millifærslum sem þarna er lagt til. Betra er að ganga hreint til verks, viðurkenna skömmina, gera þær úrbætur sem nauðsynlegt er að gera og færa þennan lið inn á fjárlög eins og hann stendur.

Hin breytingartillagan, sem við flytjum, ég og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, er um að felld verði á brott heimild ríkisstjórnar í núgildandi fjárlögum til að selja hlutinn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Sú heimildargrein er nú í fjárlögunum og veldur mörgum óhug.

Á fjárlögum ársins 2007 eru heimildir til að selja hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja og Hitaveitu Borgarfjarðar. Í maí sl. nýtti ríkisstjórnin sér heimildina til sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Markmið þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með sölunni virðist fyrst og fremst hafa verið að setja í gang ferli til að koma orkuveitum og orkulindum úr eigu opinberra aðila í hendur einkaaðila á frjálsum markaði. Söluferli Hitaveitu Suðurnesja var ekki stöðvað á vordögum þótt Samfylkingin tæki sæti Framsóknarflokksins í ríkisstjórn þrátt fyrir háværar kröfur almennings þar um.

Salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkafyrirtækis hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna úr samfélagseigu sem ekki sér fyrir endann á. Nægir þar að nefna framvindu mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur, einkavæðingu og afhendingu samfélagseigna til útvalinna einkaaðila. Er nú af hálfu nýs meiri hluta í Reykjavík markvisst reynt að stöðva og vinda ofan af þeirri óheillaþróun og stöðva þar með áform um frekari einkavæðingu og sölu orkuveitna og orkulinda landsmanna.

Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka saman Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og á ríkissjóður liðlega 20% hlut. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver, einn vatnsmesta hver jarðar. Úr honum koma upp á yfirborðið 180 lítrar af 98 gráðu heitu vatni á sekúndu.

Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja er mjög brýnt af afnema nú þegar heimild á fjárlögum til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar ásamt Deildartunguhver. Félag vinstri grænna á Akranesi og Félag vinstri grænna í Borgarfirði hafa ályktað og krafist þess að sú heimild verði tekin út, þannig að hitaveitan þeirra og Deildartunguhver fari ekki á sama einkavæðingarvergang og ríkisstjórnin setti Hitaveitu Suðurnesja á.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar, sem við stöndum að ég og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, við fjáraukalagafrumvarpið hér við 2. umr. Ég hef einnig gert grein fyrir tveimur breytingartillögum. Önnur er frá mér og hv. þingmönnum Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Bjarna Harðarsyni, um að gengið verði eðlilega og löglega til verks hvað varðar endurbyggingu Grímseyjarferju. Hin er frá mér og hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, um að afnema heimildir ríkisins til að selja Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Ég mun í seinni ræðu minni koma frekar inn á einstök atriði, einstaka tillögur, í frumvarpi til fjáraukalaga og í breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur lagt til.