135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:28]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að ræða í stuttu máli og veita andsvar við orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem komu fram í annars ágætri yfirferð hans um nefndarálit minni hlutans. Ég vil líka nota tækifærið til að þakka þeim ágætu hv. þingmönnum Jóni Bjarnasyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir góða samvinnu í nefndinni. Það hefur verið ánægjulegt að vinna að þessu verkefni með þeim.

Sú umræða sem þeir eru að vekja með nefndarálitinu snýst í raun um grundvallaratriði þeirrar umræðu sem við þurfum að taka í tengslum við fjárlagagerð hvers árs, í fjárlagavinnu hvers árs, og ekki síður um þau atriði sem hér eru rædd varðandi fjáraukann.

Ég skal verða fyrstur manna til að viðurkenna það hér að fjáraukalögin eins og þau eru úr garði gerð eru í samræmi við það sem hefur verið tíðkað á hinu háa Alþingi í mörg herrans ár og umræðan í fjárlaganefnd hefur verið með þeim hætti að við sjáum okkur illt að snúa af þeirri braut í einu vetfangi.

Ég vil í tengslum við það sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar varðandi Grímseyjarferjuna benda sérstaklega á þau atriði sem meiri hluti fjárlaganefndar tiltekur í áliti sínu við þessa umræðu. Með leyfi forseta vitna ég orðrétt í tillögu meiri hlutans sem er með þeim orðum: „að færslan varðandi Grímseyjarferjuna er í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda.“ Enginn ágreiningur er þar á milli um framkvæmd þessa máls.