135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:30]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einmitt gagnrýnt að Ríkisendurskoðun og fjármálaráðherra sendi fjárlaganefnd skilaboð með þessum hætti um mál sem eru til vinnslu í fjárlaganefnd. Ég tel að nefndin hafi fullt sjálfstæði til að taka á málinu á þinglegum forsendum þó að minnisblað hafi borist inn. Það er mun hreinlegra, þinglegra og eðlilegra að bein fjárveiting komi vegna verksins. Hvaða skoðun sem við höfum á forsögunni liggur fyrir að ríkissjóður er nú búinn að skuldbinda sig fyrir um 500 millj. kr. án heimildar sem ekki er hægt að gera afturreka. Það er miklu eðlilegra ríkissjóður komi með þá fjármuni beint inn til verksins í stað þess að halda áfram skollaleiknum og millifæra milli einstakra liða hjá Vegagerðinni, færa framkvæmdalið yfir á rekstrarlið eins og þarna er gert. Ríkisendurskoðun gagnrýndi það mjög harðlega í umsögn sinni.

Hvaðan er framkvæmdaféð til að greiða fyrir smíði Grímseyjarferju tekið? Er það af einhverjum vegum sem átti að vera búið að byggja upp á Vestfjörðum og Norðausturlandi? Miklu eðlilegra er, fyrst málin liggja svona fyrir, að leggja fjármuni beint til verksins og hætta þeim skollaleik að fara í kringum fjárreiðlulögin.