135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:32]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna spurningar hv. þm. Jóns Bjarnasonar um hvaðan féð sé tekið vil ég taka fram að það er að sjálfsögðu tekið úr ríkiskassanum, sameign okkar allra, eins og allir þeir fjármunir sem fjárlaganefnd hefur gert tillögur um ráðstöfun á.

Hann spyr einnig hvort það sé tekið frá öðrum verkefnum og þá hvaða verkefnum. Því er ekkert auðvelt að svara. Væntanlega kemur það í veg fyrir að ráðist sé í einhver önnur ný verkefni. Fram kemur í fjáraukanum að upphæðin sé rétt tæpur hálfur milljarður kr., 487 milljónir, sem ella hefði getað farið til einhverra annarra verkefna. Eftir stæði þá að enn vantaði samgöngubót til Grímseyjar og einhvers staðar verður að taka þá fjármuni. Í umræðunni um Grímseyjarferjuna er í mínum huga grundvallaratriði að tryggja samgöngur til Grímseyjar og það kostar fé, hvaðan sem það er tekið.

Ég vil samt sem áður nefna við þetta tækifæri að ég tek í meginatriðum undir þau sjónarmið sem komið hafa fram í máli hv. þingmanns varðandi meðferð mála og verklag. Ég undirstrika þó enn og aftur sem ég sagði í upphafi andsvars míns áðan að það tekur tíma að breyta um verklag og það hefur margoft verið rætt fjárlaganefnd. Komið hefur fram í orðum formanns fjárlaganefndar og varaformanns sem hér stendur að vilji er til þess að gera það og við höfum heitið á stjórnarandstöðuna að taka á þeim málum með okkur.