135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:45]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Við ræðum um fjáraukalög og það hefur komið fram í fréttum og í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar að að meirihlutaáliti um fjáraukalögin standa þeir þingmenn sem standa að ríkisstjórnarmeirihlutanum og auk þess sá sem hér stendur. Ég hef þó skrifað undir álitið með fyrirvara og sá fyrirvari lýtur einkum að vinnubrögðum en ekki því að ég telji ekki þær stofnanir og þau verkefni sem hér er lagt til að verja fé til góðra gjalda verð. Raunar er það þannig að með þessum fjáraukalögum eru í höfn ýmis gömul baráttumál okkar framsóknarmanna við fjárlagagerðina svo sem eins og það að nú er höggvinn af hinn langi og erfiði hali hjá Landspítalanum sem hefur auðvitað verið bagalegur og afskaplega vond stjórnsýsla, að stofnanir safni hala til langs tíma eða að fjárframlög til þeirra séu sannanlega miklu lægri heldur en vera skyldi. Af þessum ástæðum og ýmsum fleirum taldi ég rétt að skrifa undir álit meiri hlutans. Það er líka rétt að það komi fram hér, sem hv. þm. Jón Bjarnason vék einnig að fyrr í ræðu að hann væri næstum því meyr án þess að skilgreina það nánar en staðreyndin er sú að samstarf innan fjárlaganefndar hefur verið mjög gott og vinátta þar milli manna er fölskvalaus vil ég trúa og forusta þeirra hv. formanns og varaformanns hefur verið mjög góð. Þar með er þá þeim kafla ræðunnar lokið að ég hlaði þá lofi og kemur nú að því að ég færi fram það sem ég tel að betur megi fara hjá þeim, hv. formanni og varaformanni og meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég tel eins og komið hefur fram í umræðu einnig innan fjárlaganefndar að sú notkun sem viðgengst á fjáraukalögum sé allsendis röng. Þrátt fyrir að það sé auðvitað ekki með þeim hætti að við getum breytt öllum vinnubrögðum varðandi fjárlagagerð í einu vetfangi þá tel ég engu að síður að það ráðslag sem nú er verði ekki réttlætt með hefðinni einni enda gengur það um sumt miklu lengra en tíðkað hefur verið. Hv. formaður fjárlaganefndar vék að því að fjáraukalögin styddust vitaskuld við sérstök lög þar um og í lögum um fjárreiður ríkisins segir svo um fjáraukalög að í þeim skuli leita eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir og á öðrum stað að fjáraukalögin séu til að bregðast við breytingum sem verða á árinu á mörkuðum tekjustofnum og lögbundnum framlögum. Þess vegna er það mín skoðun að þegar um er að ræða gamla skuldahala opinberra stofnana sem þær hafa fært milli ára árum saman, þá sé faglega rétt að þeir séu teknir niður með fjárlögum en ekki fjáraukalögum og raunar staðfestir það hvað framkvæmdin er röng að þessu sinni. Ef við tökum sem dæmi framhaldsskóla landsins sem margir hverjir glíma við gamla skuldahala þá er raunar, þó að ekki sé farið mjög skýrt ofan í það í nefndaráliti, verið að leggja það til að með fjáraukalögum verði þessir halar allir skornir niður en það er aftur á móti ekki horft til þess að rétta fjárhag skólanna þannig af að fjárframlög þessa árs dugi. Það kom fram í samtölum sem fóru fram í menntamálanefnd við fulltrúa framhaldsskólanna, ég var svo lánssamur að fá að sitja þar einn fund, að þeir telja að á árinu 2007 séu fjárveitingar alls staðar ónógar enda reiknilíkan framhaldsskólanna mjög umdeilanlegt þannig að fjárframlög á árinu eru of lág á fjárlögum. Það er ekki tekið á því á fjáraukalögum en það er aftur á móti tekið á því að höggva burt hala sem tilheyra alls ekki árinu 2007 heldur í mörgum tilfellum miklu eldra tímabili. Þetta er mjög ankannaleg notkun á fjáraukalögum.

Það má einnig spyrja sig þegar staða framhaldsskólanna er skoðuð sérstaklega hvernig tillagan um uppgræðslu á halla þeirra er til komin, hvort menntamálaráðherra hafi gert þá tillögu til fjármálaráðherra, — nú hagar reyndar ekki svo til hér að ég geti beint spurningu minni til hæstv. menntamálaráðherra — en það hefur raunar ekkert komið fram um að tillaga að greiða þessa hala niður sé frá menntamálaráðuneytinu heldur kemur hún inn í umfjöllun fjárlaganefndar, í óskalista hennar. Auðvitað er það gott að stofnanir séu ekki að dragnast með hala en þetta er samt ekki alveg svo einfalt að fjárlaganefnd geti tekið sér, eða æskilegt að hún taki sér hvaða forustu sem er í þessu máli. Halli í rekstri ríkisstofnana er mjög vandmeðfarið mál og vitaskuld vandamál í öllum opinberum rekstri, ekki bara hér á landi heldur alls staðar og það er mjög mikilvægt að gætt sé að þeirri ögun sem þarf að vera í rekstri ríkisstofnana. Þess vegna hefði ég talið að frumkvæði þingsins í því að höggva af hala ríkisstofnana án atbeina ráðuneyta orki hreinlega tvímælis.

Ég á kannski von á því að menn segi að ég vilji þá að framkvæmdarvaldið ráði áfram yfir þinginu og yfir þingræðinu en það er ekki svo. Það er einfaldlega þannig að þetta verkefni verður ekki unnið ef ekki er full samstaða milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og það að ríkisstofnun geti — við getum tekið sem dæmi að ríkisstofnun óhlýðnist ráðuneytinu sínu þá væri það mjög bagalegt. Nú er ég ekki að segja að það hafi orðið tilfellið með þessa framhaldsskóla. Ég hef ekkert fyrir mér um það og held að það eigi ekki við þar en við gætum tekið slíkt dæmi að það gerðist en síðan kæmi fjárlaganefnd inn og greiddi niður skuldir sem sköpuðust af slíku agaleysi í ríkisfjármálum. Það er mjög bagalegt. Ég held reyndar að fjáraukalögin núna sem og fjárlögin sem rædd voru við 1. umr. fyrir nokkrum vikum beri mjög skýrt vitni því samstöðuleysi og því agaleysi sem er yfir allri landstjórninni þessi missirin. Það er afskaplega mikilvægt að þess sé gætt í peningamálum að alltaf sé mjög fast haldið um og ég verð að segja að sjálfur vildi ég ekki vera í forsvari fyrir fyrirtæki, og þekki þó aðeins til fyrirtækjareksturs, sem væri rekið með líkum hætti og hér er gert.

Til þess að skýra þetta aðeins betur langar mig að fara ofan í framkvæmdina eins og hún kemur mér fyrir sjónir og eins og hún lítur út fyrir okkur sem höfum starfað í fjárlaganefnd. Hér var frumvarp til fjáraukalaga rætt fyrir nokkrum vikum við 1. umr. Þegar komið er að því að það verði tekið til 2. umr. koma fram breytingartillögur frá ríkisstjórninni og það er í samræmi við venju. Það má margt að þessum tillögum finna bæði fjáraukalögunum upphaflega og síðan breytingartillögunum en ég ætla ekki að gera athugasemd við það. Ég ætla að gera athugasemd við það að til viðbótar við þær viðbætur sem ráðuneytin koma sér saman um ákveður meiri hluti fjárlaganefndar að veita fé mjög rausnarlega inn í hin og þessi verkefni í gegnum fjáraukalög. Nú er sjálfsagt ekkert að því að meiri hluti fjárlaganefndar beiti sér á slíkum vettvangi í gegnum fjárlög en í gegnum fjáraukalög getur hann ekki gert þetta ef fullur agi á að vera á ríkisfjármálunum. Það virðist hins vegar ekki vera markmiðið hjá núverandi stjórnvöldum og við sjáum þess stað mjög víða og nú síðast var í fréttum í dag að lánshæfismat okkar Íslendinga fer hríðlækkandi og það er margt sem bendir til að þessi lausatök á fjármálunum séu að verða okkur mjög erfið.

Mig langar að nefna annað dæmi um þau lausatök og það er reyndar tillaga sem kemur frá ríkisstjórninni svo ég hnýti ekki eingöngu í hv. þm. Gunnar Svavarsson og Kristján Þ. Júlíusson.

Í breytingartillögu sem ríkisstjórnin leggur fram við 2. umr. um fjáraukalög er lagt til að til þjóðlendumála sé varið 10 millj. kr. til að standa straum af kostnaði fjármálaráðuneytisins við undirbúning kröfugerðar ríkisins í þjóðlendumálum. Þarna er um að ræða upplýsingaöflun úr Þjóðskjalasafni sem nýtist við kröfugerð ríkisins. Áætlaður heildarkostnaður nemur 30 millj. á ári en óbyggðanefnd greiðir sem sagt af sínum fjárlagalið tvo þriðju og einn þriðja þarf að sækja um í aukafjárfestingu.

Nú spyr ég mig sem byrjandi í vinnu í fjárlaganefnd, en það er nú oft þannig að maður spyr skynsamlegustu spurninganna meðan maður er byrjandi: Hvað kallar á það að veitt sé aukafjárveiting til þjóðlendumála? Er einhver brýn þörf á því að í þjóðlendumálum förum við fram úr því sem ákveðið hafði verið í fjárlögum? Þjóðlendumál eru þess eðlis að það er ekkert sem segir að þau þurfi að ganga eitthvað hraðar eða þar liggi eitthvað á. Þau eru dómsmál sem fjalla um eignarhald á fjalllendi á Íslandi sem að mati þeirra sem fóru af stað með þau mál hafa verið í óvissu í þúsund ár. Ég hef reyndar aðra skoðun á því og álít að þessi óvissa hafi aldrei verið þjóðinni til neins baga en burt séð frá því hvaða skoðun við höfum nákvæmlega á þeim fjöllum sem þarna um ræðir þá er ekkert sem segir að það megi ekki fylgja réttum fjárlögum og halda sig innan fjárheimilda. Það er hægt að skilja framúrkeyrslu í fjárlögum þegar um er að ræða stofnanir sem glíma við verkefni á borð við menntun ungmenna því það er erfitt að segja ungmennunum að þau skuli bara bíða með sitt nám. Það er ekki gott veganesti fyrir þau og það er enn betur hægt að skilja þau þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. En það almenna agaleysi sem hér er í ríkisfjármálum og hefur kannski lengi verið er erfitt að réttlæta og það mun koma okkur mjög illa í þjóðarbúskapnum ef svo fer sem ríkisstjórnin virðist ganga út frá, þótt ég hafi ekki alveg jafnmikla sannfæringu fyrir að hér sé að verða niðursveifla í hagkerfinu, en ef svo er þá eru þessi lausastök afar slæm.

Við kynntumst því á nýliðnu vorþingi hvernig hlutir eins og félagsleg þjónusta og heilbrigðisþjónusta voru lagðar undir hæl frjálshyggjunnar í landinu og margt sem þar var lagt til var með miklum ólíkindum og við gagnrýndum það í stjórnarandstöðunni ég og fleiri og ég ætla ekki að fara djúpt inn í þá umræðu aftur. En mér þykir eiginlega enn kvíðvænlegra nú ef svo er komið að fjárlagagerð þjóðarinnar og sá agi sem þarf að vera í fjárlögum er kominn undir duttlungum sósíaldemókrata í þeim stóra stjórnarmeirihluta sem hér er.