135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:07]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði áðan, mikilvægasta verkefnið er að koma í veg fyrir að ríkisstofnanir safni halla. Til að svo megi verða þurfum við að hætta að hugsa um ríkiskassann sem botnlausa hít sem endalaust megi teygja sig ofan í. Ég sé ekki þau merki í þeim vinnubrögðum sem hér eru stunduð við gerð fjáraukalaga að það sé hugsunarhátturinn heldur er þvert á móti farið mjög freklega þar ofan í með ýmis mál. Ég hef gagnrýnt, og mun gera það áfram við 2. umr. fjárlaga, hve fjárlög eru hátt stemmd hjá hinni nýju hæstv. ríkisstjórn.

Þetta kemur inn á umræðuna um frumkvæði þingsins. Ég var ekki að tala um að frumkvæði þingsins mætti ekki koma til en ég bendi á að frumkvæði þingsins í blóra við ríkisstjórn varðandi ríkisstofnanir er mjög háskalegt. Það eru beinlínis háskaleg skilaboð sem við sendum ríkisstofnunum og út í samfélagið, að hægt sé að sækja fé hjá þinginu þegar framkvæmdarvaldið setur stólinn fyrir dyrnar.

Hv. þingmaður upplýsti að hann hefði gert þetta í samráði við menntamálaráðherra. Ég hefði gaman af því að vita hvort þetta var þá upphaflega tillaga frá menntamálaráðherra til fjármálaráðherra, um þessi framlög til framhaldsskólanna, sem fjármálaráðherra henti út af borðinu. Samstöðuleysið í ríkisstjórninni fer nú að verða ansi berlegt miðað við þessa sögu.

Um (KÞJ: Þjóðlendunefndirnar?) þjóðlendunefndirnar þurfum við Kristján ekki að tala. En varðandi Ríkisspítalana ítreka ég að það er fagnaðarefni að þar skuli vera komið fjármagn. Það er hins vegar gagnrýnisvert hvernig að málum er staðið.