135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:31]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Gunnari Svavarssyni, fyrir þetta svar. Það gefur mér hins vegar tilefni til að spyrja frekari spurninga.

Nefndarálitið er að mínu mati ófullnægjandi að þessu leyti og ég spyr hv. formann nefndarinnar: Hver er vitneskja nefndarinnar um málið? Hvað veit hún um málið? Hvað hefur komið inn á borð fjárlaganefndar um þetta mál? Ég þykist vita að hv. fjárlaganefnd líti þetta mál alvarlegum augum og muni taka það föstum tökum en hvað veit nefndin í dag?

Hv. þingmaður upplýsti líka að hann hefði talað við Ríkisendurskoðun, hv. þm. Pétur Blöndal, formann efnahags- og skattanefndar, ef ég heyrði rétt, og hæstv. fjármálaráðherra. Hver var niðurstaðan úr þeim umræðum? Hvað kom fram í þeim umræðum? Hvaða skýringar gaf hæstv. fjármálaráðherra á þessu máli? Svör hv. formanns fjárlaganefndar vekja miklu fleiri spurningar en þau svara. Og það stendur til að skoða málið milli umræðna. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar: Hvað á að skoða? Er nokkur þörf á að skoða þetta? Blasir ekki við að hér er um brot á lögum að ræða? Er ekki tími aðgerða? Þarf frekari skoðun? Og ef það er tími aðgerða, til hvaða aðgerða hyggst þá formaður nefndarinnar grípa?