135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fjárlaganefnd hefur verið gerð grein fyrir starfsemi félagsins og tilurð þess, undir hvaða ráðuneyti það heyrir og að gerður hafi verið samningur við það og grundvallaratriði samningsins. Ég hef spurst fyrir um það hvort ekki hafi verið farið eftir þeim atriðum og mér hefur verið sagt að svo sé.

Varðandi það hins vegar hvort sá texti sem ég var að lesa sé ekki nægilega skýr eða hvað hann þýði þá er getið um það í athugasemdum við frumvarpið hvað um er að ræða þegar talað er um umsýslu. Þar er þess getið sérstaklega að það sé úttekt á svæðinu, hreinsun og eftir atvikum rekstur, sala og útleiga fasteigna. Ég held því að það eigi að vera alveg skýrt að heimildin sé fyrir hendi og talað var um það frá upphafi að þetta skyldi vera verkefni félagsins. Í þessu máli á ekki að vera neitt að fela. Eins og ég sagði áðan hefur fjárlaganefnd verið gerð grein fyrir þessu og ef hún óskar eftir að fá frekari greinargerð mun auðvitað verða orðið við því. Síðan þarf, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að geta um þessa hluti í fjárlögum og ríkisreikningi eins og lög gera ráð fyrir.