135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt af hv. þingmanni að trúa því ekki að þær reglur sem í samningnum eru heimili sölu til aðila sem félagið hefur velþóknun á án auglýsingar. Það er rétt af honum að trúa því ekki. Samningurinn gengur út á það að við þessa sölu skuli fara eftir þeim reglum sem gilda um sölu á eignum ríkisins. Ég veit ekki annað en farið hafi verið eftir þeim. Ég hef beinlínis spurt að því hvort það hafi ekki verið gert. Dagleg umsýsla félagsins heyrir hins vegar ekki undir fjármálaráðuneytið þannig að ég hef ekki með það að gera á daglegum grundvelli.

Þótt við séum sammála um þetta atriði, hverju hv. þingmaður á ekki að trúa, erum við greinilega ósammála um hitt atriðið, hvort sem um er að ræða lögfræðinga eða lögspekinga. Ég tel að orðalagið sem um er að ræða, umsýsla, og skýringu á því orðalagi er að finna í athugasemdum frumvarpsins, leiði til þess að heimilt sé að fela Þróunarfélaginu þetta verkefni, enda hefur það aldrei verið falið fyrir nokkrum manni að það væri verkefnið. Þetta er í fyrsta skipti sem það kemur upp að það hafi ekki verið heimilt. Ég er satt að segja hissa á því því að mér finnst þetta vera eins skýrt og hægt er að kveða á um hluti eins og þessa í lögum sem þessum.